146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að veita mér tækifæri til að spjalla um hluti sem ég hef gaman af að spjalla um. Að öllu gamni slepptu snertir þetta okkur öll. Eins og komið hefur fram skiptir Evrópusambandið okkur máli. Þetta eru vinaþjóðir okkar. Það skiptir mjög miklu máli að vel gangi. Menn þekkja skoðanir mínar á inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það skiptir mjög miklu máli að þjóðum Evrópusambandsins gangi vel. Það snertir okkur beint.

Ég held að stærsti vandi Evrópusambandsins sé að búið er að búa til fyrirkomulag sem er mjög langt frá fólkinu. Ég held að það sé alveg sama hvernig það er. Ef við sem stjórnmálamenn hefðum byggt upp stjórnkerfi hér á Íslandi, margir kvarta undan sambandsleysi okkar við kjósendur, þar sem við værum kosin á tíu ára fresti eða bara yfir höfuð ekki kosin geta menn ímyndað sér hvað það væru lítil tengsl, jafnvel í þessu litla þjóðfélagi. Ef þar er fólk sem er með langmestu völdin, sem ekki er hægt að kjósa inn eða út, þá hefur það áhrif á alla hluti.

Evrópusamstarfið er miklu meira en ESB, eins og hv. þingmaður kom inn á. Við erum með EFTA, EES, Schengen, NATO, sum ríki eru inni, sum úti. Við eigum bara að ræða þetta út frá því en ekki hagsmunum eins fyrirbæris, sem í þessu tilfelli er ESB.

Ég hef átt mikið af tvíhliða fundum og auðvitað hefur þessi mál borið á góma. En þegar maður talar við ráðherra þjóðþinganna sérstaklega finnst mér ég skynja að menn eru meðvitaðir um að það verður að fara í breytingar. Menn hafa áhyggjur af því hvort það sé einhver forysta til að leiða þessar breytingar. Það er engum til góðs ef vandinn eykst. Það getur leitt slæma hluti af sér. Það þarf að berjast fyrir þeim gildum sem við erum sammála um. Þeir sem hafa þau gildi, sem er lunginn af (Forseti hringir.) stjórnmálamönnum í álfunni, verða að koma sér saman um hvaða fyrirkomulag sé best þannig að við getum haldið þau í heiðri.