146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:43]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að orð formanns Samfylkingarinnar, sem hefur þrjá þingmenn á þessu kjörtímabili, hafi ekki orðið til þess að Norðmenn hafi orðið afhuga EES-samningnum. (Gripið fram í.) Ég talaði um það áðan að sá samningur er gríðarlega mikilvægur hagsmunum okkar, enda börðust forverar Samfylkingarinnar fyrir því að hann yrði innleiddur. (Utanrrh.: Sumir.) Sumir. Ég er ekkert að tala um að allir flokkar séu hlynntir því að ganga í Evrópusambandið. Flestir flokkar hafa orðað það þannig — þeir sem á annað borð hafa verið áhugasamir um það — að þeir vilji láta gera samninga og ganga til aðildarviðræðna til að skoða hvaða niðurstaða kæmi út úr því. Síðan hefur margt gerst. Upp á okkur stendur að efna þau loforð sem voru gefin um þjóðaratkvæðagreiðslu. Til hversu eru þjóðaratkvæðagreiðslur ef ekki á að fara eftir þeim á einhvern hátt? Sjálfstæðisflokkurinn hefur gefið þá skýringu að ákveðinn ómöguleiki fælist í því að þurfa að hlíta niðurstöðu úr slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skil að slíkar aðstæður gætu verið erfiðar. En hins vegar er ekkert skammarlegt að lúta vilja þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað þessu, hæstv. utanríkisráðherra getur ekki hafnað því.

Hvað varðar vexti í Evrópusambandinu og þær aðstæður sem þar eru: Þar er Strympa sem betur fer aðeins að braggast. Það er hagvöxtur þar núna. Það breytir því ekki að vaxtastigið á Íslandi, hvort sem vel hefur gengið í Evrópusambandinu eða illa, hefur verið út úr kú síðustu ár og áratugi.