146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna því algerlega að ég hafi verið að tala einhvern samning niður. (Utanrrh.: Þú sagðir það.) Nei. Hlutirnir geta einfaldlega verið góðir og nýst og brúklegir þó svo að maður vilji kannski skoða hvort hægt sé að halda fram á veginn. (Gripið fram í.) Það er merkileg einföldun á heimsmyndinni sem birtist hjá hæstv. utanríkisráðherra þegar hann segir: Þegar maður talar við útlending. Er útlendingur eitthvert fyrirbæri, eitthvað eitt sem er á sömu skoðun alltaf? (Gripið fram í.) Nei, talaðu þá, í guðanna bænum, eins og heimurinn sé aðeins litríkari og fjölbreyttari en það. (Forseti hringir.)

(Forseti (JSE): Forseti vill beina því til þingmanna að nota rétt ávörp.)

Hæstv. utanríkisráðherra, burt séð frá aðildarviðræðum eða ekki, burt séð frá hugsanlegri sambandsaðild eða ekki: Sjálfstæðisflokkurinn skuldar okkur það að efna þau loforð sem hann gaf um þjóðaratkvæðagreiðslu. Eða var það bara sagt til að komast fyrir vaðið í augnablikinu og sleppa úr þeirri pólitísku klemmu sem hann var í? Er Sjálfstæðisflokkurinn með öll sín 25–30% virkilega ekki stærri og sjálfsöruggari flokkur en svo að hann geti ekki bara sagt hvað hann meinar í málum? (Utanrrh.: Þú ert fjórum árum of seinn.)