146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef verið að gera hv. þm. Loga Einarssyni upp þá skoðun að hann vilji að við stefnum að því að fara inn í Evrópusambandið. Þannig hljómaði ræðan í mínum eyrum, ég kann að hafa gefið mér meira en orð hans gáfu tilefni til. En ég vildi hins vegar segja að ef stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar telja að tilefni sé til að fara í viðræður, taka upp að nýju viðræður, eða hvernig menn vilja orða það, hlýtur það að byggjast á því að menn hafi einhverja sýn á það hver niðurstaðan eigi að verða. Almennt fara menn ekki í viðræður við einhverja aðila, hvort sem það er Evrópusambandið eða fyrirtæki eða þjóðir í samskiptum sín á milli, nema menn ætli sér að ná jákvæðri niðurstöðu. Menn setjast að samningaborði til þess að semja, til þess að ná niðurstöðu, ekki bara til þess að þreifa sig áfram og kíkja í pakkann. Menn gera það ekki. Menn hljóta að hafa einhverja stefnu um hvaða niðurstöðu menn vilja fá, einhverja sýn á hvort þeir vilji ná jákvæðri niðurstöðu, vilji að samningurinn gangi upp eða ekki. Það var vandinn á kjörtímabilinu 2009–2013 að þeir ríkisstjórnarflokkar sem þá stóðu að aðildarviðræðum við Evrópusambandið voru í hjarta sínu og í grundvallaratriðum ósammála um hvort þeir vildu ná niðurstöðu eða ekki.