146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:55]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir góðan inngang. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að kafa nægilega vel ofan í öll þau mál sem eru lögð fram í skýrslunni en vil samt sem áður taka til máls um nokkur þeirra sem standa okkur nærri í Bjartri framtíð, m.a. um — guð, ég held að ég verði að hvísla — ESB-mál.

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kemur fram að umræður um viðskiptastefnu séu að mestu lausar úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu og að full þörf sé á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES. Við í Bjartri framtíð getum ekki tekið undir að verið sé að styrkja stöðu okkar innan EFTA og EES rétt á meðan við erum ekki í virku umsóknarferli, en kannski ekki alveg á sömu forsendum og ráðherrann lýsir hér. Þar verðum við að vera honum ósammála. Við leggjum nefnilega áherslu á að landa góðum samningi við ESB sem þjóðin getur síðan eftir upplýstar umræður og vel ígrundaðar kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem sagt leggja þetta í hendur þjóðarinnar.

Við erum reyndar meðvituð um að tímasetningin er ekki rétt akkúrat í dag vegna þróunar í álfunni, ekki síst vegna ákvörðunar Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu. Hins vegar teljum við í Bjartri framtíð að með því að opna leið til gjaldmiðilssamstarfs við Seðlabanka Evrópu auki það stöðugleika strax hér á landi, sem er eina vitræna leiðin til að komast hjá því furðulega verðtryggingarkerfi sem fylgir íslensku krónunni með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenska alþýðu. Við vitum reyndar að það er ekki töfralausn. Þær eru bara ekki til. En við teljum að innganga í ESB og gjaldmiðlasamstarf við Seðlabanka Evrópu sé sigurstranglegasta leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika hér á landi. Að okkar mati höfum við ekki séð betri lausn sem mögulega gæti gert sama gagn. Gleymum því ekki heldur að í stjórnarsáttmálanum segjum við að ríkisstjórnin hafi sammælst um að greiða atkvæði um hugsanlegt þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB og leiða það til lykta undir lok kjörtímabilsins.

Þar er ekkert kannski/eða/ef, ópersónulegar skoðanir einstakra ráðherra ráða ekki för. Þetta er að miðla málum.

Um Brexit, aðeins léttara. Vissulega var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi högg fyrir Evrópusambandið. Heimurinn allur horfir grannt á þróunina, flest okkar með áhyggjur af því hvað koma skuli þar. Það var samt ekki alveg jafn mikið högg og andstæðingar ESB vilja margir meina. Á heildina litið var niðurstaðan nokkuð tæp, 52% vildu út og 48% vildu vera áfram inni. Voru það ekki um 60% sem kusu? Þessar tölur eru því enn lægri, svolítið eins og þegar Trump laumaðist í forsetastól í Bandaríkjunum. Það sem virðist hafa gert gæfumuninn var grímulaus þjóðernishyggja í pólitík, breskir íhaldsmenn og popúlísk loforð þeirra, sem börðust fyrir útgöngu sem sýndi sig svo í kjölfarið að aldrei var ætlunin að standa við. Skotar og Norður-Írar létu hins vegar ekki gabba sig og kusu afgerandi með áframhaldandi aðild. Það hvað Skotar og Írar eru ánægðir innan ESB ætti að senda okkur skýr skilaboð hér heima, enda eru það þau lönd utan hinna norrænu ríkjanna sem við eigum hvað mest sameiginlegt með.

Ég vildi líka tala aðeins um þróunarsamvinnu. Hér hefur verið sett fram sú skoðun að nánast ekkert sé að gerast í þróunarsamvinnumálum. Er það ekki alveg rétt að mínu mati. Ég tek undir að við eigum að gera meira en við þurfum að meta hverju sinni hversu mikið er raunverulega hægt að gera. Sem dæmi má nefna að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á árunum eftir hrun tók ekki raunverulega ákvörðun sjálf um framlög til þróunarsamvinnu á sínum tíma. Enginn þarf að velkjast í vafa um vilja Bjartrar framtíðar fremur en vilja Vinstri grænna og Samfylkingar á sínum tíma. Við viljum gjarnan gera betur en skiljum líka forsendur forgangsröðunar. Það má heldur ekki gera lítið úr því að þrátt fyrir allt er um að ræða hækkun í prósentum talið vegna aukinnar þjóðarframleiðslu, fleiri krónur fara úr landi en áður. Ég tek fram upplýsingar um framlög til þróunarsamvinnu árið 2016 á bls. 55 og 56 í skýrslunni sem eru vel skilgreind. Einnig er vel skilgreind framkvæmdaáætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2013–2016 á bls. 57–69. Ég sit sjálf í þróunarsamvinnunefnd og þó að ég sé rétt að komast inn í þau mikilvægu mál sem við tökum þátt í á alþjóðlegum vettvangi mun ég beita mér fyrir að við höldum áfram að bæta okkur í þróunarsamvinnu eins og við getum.

Gleymum því heldur ekki að ESB, svo ég fari aftur inn í þessi léttu mál sem við höfum rætt hérna, var upphaflega stofnað sem friðarbandalag. Friður hefur haldist í álfunni vegna þeirrar samvinnu og einingar sem haldist hefur vegna hins sameiginlega grundvallar sem sambandið veitir. Samþætting hagsmuna hefur þannig myndað sterka einingu, bæði efnahagslega og félagslega, og komið í veg fyrir ólgu og illindi milli þjóða.

Þá vildi ég ræða á þeim forsendum aðeins meira um mannréttindi og það hlutverk okkar að setja fordæmi á Íslandi. Björt framtíð vill líka að Íslendingar leggi sitt af mörkum til friðar í heiminum, ekki aðeins með þátttöku í þróunarsamvinnu heldur með hjálparstarfi og ýmiss konar friðarumleitunum. Hvað varðar mannréttindi á þessu sviði vil ég aðeins tala um ábyrgð okkar á pólitískum vettvangi. Ég vil vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, með leyfi forseta:

„Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda þar sterkan grunn.“

Ég tel að það hafi jafn mikið gildi hér á landi og það sem gerist erlendis.

Ef ég mætti, með leyfi forseta, lesa upp úr skýrslunni sem er til umræðu. Á bls. 17 segir:

„Ísland hvetur ríki til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar varðandi mannréttindi, ekki síst með aukinni þátttöku og tilmælum í reglubundinni allsherjarúttekt á stöðu mannréttinda á vettvangi mannréttindaráðs SÞ (e. Universal Periodic Review, UPR). Á liðnu ári beindi Ísland tilmælum til allnokkurra landa og flutti yfirlýsingar um mannréttindaástandið víða um heim.“

Það vil ég að við höldum áfram að gera. Að því sögðu vil ég ræða aðeins um frétt sem berst okkur núna af hræðilegu ófremdarástandi í Tsjetsjeníu þar sem yfirvöld svipta menn frelsi vegna gruns um samkynhneigð og beita þá ofbeldi og jafnvel myrða. Gríðarleg uppbygging hefur verið í landinu og jafnvel hægt að segja að það hafi risið upp úr mikilli lægð og stríðsástandi undir stjórn Ramzan Kadyrov. Kadyrov hefur fengið stuðning frá Rússlandi og talað opinberlega fyrir ást sinn á Rússlandi og virðingu fyrir Vladimir Pútín. Á meðan við horfum á opinbert pólitískt ástarsamband milli þessara manna lokar Rússland augunum fyrir mannréttindabrotum gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu. Við þekkjum vel stefnu Rússlands í hinsegin málefnum og það er alls ekki traustvekjandi að þau taki mikið til máls til að styðja við mannréttinda- og jafnréttisáherslur, sem við búum við á Vesturlöndum, sérstaklega á Íslandi þar sem jafnréttismál eru okkar kær.

Afneitun tsjetsjenska ríkisins á valdi er mikið áhyggjuefni. Alver Karman, talsmaður Ramzan Kadyrov, gaf út yfirlýsingu vegna frétta af ástandinu og sagði þær vera falskar og beinlínis lygar. Rök hans voru að ekki væri hægt að beita slíku harðræði því að hinsegin fólk væri ekki til í Tsjetsjeníu, væru ekki vandamál þar. Væri það til myndu ættingjar þess senda það fólk þangað sem það ætti ekki afturkvæmt. Það er sérstaklega mikilvægt að stjórnir flestra ríkja þrýsti á Rússa um að sjálfstæð rannsókn fari fram á ástandinu. Það gæti vonandi verið fordæmi áður en önnur svæði innan Rússlands byrja að gera slíkt hið sama.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hver afstaða hans til málsins er og hvort hann hyggist setja þrýsting á Rússland þegar tækifæri gefst til að ræða saman.

Svo vil ég bæta við að á opnum blaðamannafundi fyrir tveimur dögum hvatti þýski kanslarinn, Angela Merkel, Vladimir Pútín til að framkvæma sjálfstæða rannsókn, eins og ég hef nefnt að sé nauðsynleg, um ástandið og tilkynningar sem berast til okkar um pyndingar og ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu. Hún gerði það til að tryggja öryggi LGBT-fólks á þessu svæði. Er það ekki fordæmi sem við treystum okkur til að fylgja? Ég myndi vilja lesa í næstu skýrslu sem kemur hér fram að við höfum tekið afstöðu til þess.

Ég vænti þess að hæstv. utanríkisráðherra taki undir sjónarmið mín og að í næstu skýrslu sem lögð verður fram á Alþingi sjáum við fleiri málsgreinar um mannréttindi og aðgerðir sem við höfum staðið fyrir á alþjóðlegum vettvangi.