146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hún hefur áhyggjur af mannréttindamálum og þá sérstaklega stöðu samkynhneigðra í Tsjetsjeníu. Ég veit að vísu ekki hvort sé sanngjarnt að halda því fram að það séu ekki nógu margar setningar í skýrslunni. Ég er nú fyrsti utanríkisráðherrann sem ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Þar tók ég m.a. upp málefni LGBT-fólks. Sömuleiðis hef ég tekið það mál upp á fundum með utanríkisráðherra Rússlands. Ég hef tekið það upp í Evrópuráðinu núna eftir að þessi mál komu upp og vakið athygli á þeim með öðrum hætti. Við munum gera hvað sem við getum til þess að vekja athygli á þessu. Þær fréttir sem þaðan berast eru náttúrlega alveg skelfilegar. Það er eiginlega erfitt að færa það í orð. Þær eru bara þess eðlis og minna á skelfilega tíma. Því miður er það þannig að það eru allt að því 75 ríki í heiminum þar sem samkynhneigð er skilgreind sem ólöglegt athæfi. Þar er mikið verk að vinna. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því.

Ég virði alveg að hv. þingmaður vilji ganga í Evrópusambandið, en hv. þingmaður sagði líka að tímasetningin væri ekki góð og vísaði í orð mín þar sem ég sagði að við værum að mestu laus við þá kröfu. Ég held að fáir séu nú jafn einarðir í að vilja ganga í Evrópusambandið og hv. þingmaður. Þegar hún segir að tímasetningin sé ekki góð held ég að sú fullyrðing standist.

Síðan finnst mér að vísu ekki sanngjarnt hvernig hv. þingmaður leggur það upp varðandi stefnu ríkisstjórnar Bretlands. Hún er mjög skýr þegar kemur að viðskiptamálum og opnun Bretlands. Menn geta haft allar skoðanir á því hvort Bretar eigi að ganga út eða vera inni, það er þeirra mál. Þeir verða að ákveða það. Hins vegar liggur alveg fyrir hver stefna alla vega núverandi ríkisstjórnar Bretlands er. Síðan eru auðvitað kosningar fram undan. (Forseti hringir.) Við skulum sjá hvað kemur út úr þeim.