146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:09]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það framlag sem hann hefur nú þegar lagt til málefna hinsegin fólks og mannréttinda. Ég hvet þig endalaust til að halda áfram. Ég er mjög fegin að við skulum sitja saman í stjórnarmeirihluta og deila þessu sjónarmiði. Ég mun halda áfram að hvetja þig og við vinnum góða vinnu þar.

Varðandi ESB: Ég vona að mín orð standist ekki varðandi kulnun. Að við höldum áfram að skoða ESB og möguleika okkar. Það á alltaf að vera markmið okkar á Íslandi að ná fram því besta fyrir landsmenn hverju sinni. Á tímabili hefði verið mjög heppilegt fyrir okkur að ganga í ESB. Ég tel að sá tími gæti komið aftur. Ég vil að við séum opin fyrir því og að orð í okkar stjórnarsáttmála standi. Við megum vera ósammála. Það er kannski það mikilvægasta því að stundum þegar menn eru ósammála og leiða mál til lykta verður það enn betra á endanum.

Hvað varðar stefnu Bretlands ætla ég bara að vera einlæg: Ég skal bara treysta þeim sem vita meira um það mál en ég.