146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:17]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr og greinargóð svör. Afstaða hennar kom skýrt fram. Mig langaði líka að bæta við spurningu mína til hv. þingmanns um þróunarsamvinnumálin. Hún situr í þróunarsamvinnunefnd. Hún lýsti skoðun sinni hér áðan þess efnis að henni þætti framlag til þróunarsamvinnunnar of lágt en kannski viðunandi við núverandi aðstæður. Nú eru efnahagslegar aðstæður þær bestu sem við höfum búið við frá efnahagshruninu. Því er það mín skoðun að gera mætti mun betur í þeim efnum. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður muni beita sér fyrir því innan þróunarsamvinnunefndarinnar að kné verði látið fylgja kviði og þetta verði aukið meira en kveðið er á um í áætlun hæstv. utanríkisráðherra. Sömuleiðis langar mig að heyra hennar álit á því þegar svo hátt hlutfall sem raun ber vitni af þróunarsamvinnunni fer í málefni hælisleitenda og flóttafólks hér á Íslandi. Bara til að taka af allan vafa er ég mjög fylgjandi því að aukið fjármagn fari í þann málaflokk, sem mest. En mér þykir miður að klipið sé með þessum hætti af þróunarsamvinnunni. Þar tel ég að við eigum ekki að gefa enn meiri afslátt. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.