146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:19]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi það í ræðu minni að ég vildi vilja að við gerðum betur. En það er mjög erfitt að bera saman þessa málaflokka. Ég sit í velferðarnefnd. Hjarta mitt slær fyrir fullt af málefnum sem heyra þar undir og ég veit að við þurfum að bæta í í mennta- og velferðarkerfinu. Guð minn góður, ég hef sagt það hér áður og segi það aftur: Ef við bara ættum gullkistu þá yrði heimurinn betri í gegnum okkar þróunarsamvinnu og hérna heima.

Já, ég mun beita mér fyrir því í nefndum. En eins og staðan er mun ég mæta aftur á morgun á þriðja fund sem ég hef verið á og er að kafa ofan í mál, er að læra. Þetta er miklu umfangsmeira en við gerðum ráð fyrir því að það eru svo mörg samstarfsverkefni. Það sem við gefum frá okkur er ekki endilega fjárhagslegt heldur í formi þekkingar sem við deilum. Ég hef ekki alveg gert mér grein fyrir því öllu, en ég tel að við þurfum að rýna vel í allt sem hægt er að gera, hvað við getum lagt til málanna, og bara gerum það. Það mun ég gera en lofa ekki hér og nú nákvæmlega hvernig; ég mun kafa betur ofan í málin og vinna betur að þeim.

Hvað varðar flóttafólk er sorglegt að sjá þessu blandað saman. En það er eitt sem við þurfum að hugsa um í málefnum hælisleitenda og flóttafólks: Það eru margir sem koma til okkar, og ég hef rætt þetta sjónarmið við þá sem koma, og þeir vilja oft fara aftur til heimalandsins. Þótt þetta sé ekki beinlínis þróunarsamvinna eru ekkert allir sem sækja sér vernd hér sem vilja lifa hér áfram. Allt sem við getum gert fyrir þau hér á meðan (Forseti hringir.) þau eru hér mun bæta eitthvað annars staðar. Ef við getum menntað einhvern til kennara hér og sá getur farið heim og starfað sem slíkur er það hluti af þróunarsamvinnu, þó að þessi sjái ekki endilega stað í skýrslum. Það er mín trú að markmið flestra sé að komast aftur til síns heimalands.