146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fyrrverandi hæstv. ráðherra. Það fór ekki á milli mála hjá þeim sem hlustuðu á hv. þingmann að hún þekkir vel til þessara mála og talaði hér af mikilli þekkingu og yfirvegun um málaflokkinn. Flestu af því sem hv. þingmaður sagði er ég sammála. Ég hef að vísu ekki hugmynd um hvort Macron sé Framsóknarmaður. En ég þarf bara að kanna það í ráðuneytinu. Ég hef ekki séð það í neinum skýrslum enn þá. En hvað veit maður?

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir framlag hennar þegar kemur að stefnumótun og stöðumati. Hv. þingmaður spurði um skrifstofu öryggis- og varnarmála. Það er eitt af því sem er verið að skoða sérstaklega þar.

Um þróunarframlögin: Við gerum þetta upp nákvæmlega eins og allar aðrar þjóðir. Það er hins vegar erfitt að áætla það sem snýr að flóttamönnunum. En það er ljóst að það verður mun hærri upphæð en lagt er upp með. Við erum svolítið að feta okkur áfram þegar kemur að opinberum fjármálum og lengri áætlunum. Það kæmi mér verulega á óvart ef ekki yrðu verulegar upphæðir þar.

Ég er sammála hv. þingmanni þegar kemur að stöðumatinu og hvernig við leggjum það upp varðandi Brexit. Hv. þingmaður vék að bættum markaðsaðgangi. EES-samningurinn er mjög góður en hins vegar eru ákveðnir tollar á ákveðnum sjávarafurðum. Nú fer ég eftir minni, virðulegi forseti, menn taka bara viljann fyrir verkið; mig minnir að þetta séu síld, makríll, ákveðnar tegundir af laxi, og hvort það var ekki rækja líka. Þar greiðum við nokkra tolla.

Ég held að ég hafi svarað því sem hv. þingmaður beindi til mín en ef ekki skal ég reyna að bæta úr því í næsta andsvari.