146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit hefur ekki staðið á mér að eiga samtal við utanríkismálanefnd. Ég hef nú frekar haft áhyggjur af að utanríkismálanefnd sé orðin leið á mér, en það er annað mál. Ég held að það skipti miklu að við tökum umræðu um þau mál sem hv. þingmaður vísaði í. Hún talaði um Brexit og mikilvægi þess að við héldum vel utan um það. Við fengum ekki sérstaka fjármögnun í það en hins vegar notuðum við í þá fjármögnun sem setja átti í stofnun fastanefndar í Strassborg, sem við leystum með hagkvæmari hætti og sinnum því að mestu leyti frá París, til þess að fjármagna stöðuna í London. Það var einn starfsmaður sem fór frá Brussel til London, en annar mun koma í staðinn í Brussel.

Ég er sammála hv. þingmanni um EES-gagnagrunninn. Það sem ég er að vinna núna vegna þess að ekki var gert ráð fyrir hvítbókunum þar. Þær verða að vera. Þá er ég að vísa í skýrslu frá 2007, það er alveg kominn tími á að framkvæma hana. Hún var bara prýðileg og þverpólitísk, sýndist mér, stýrt af Birni Bjarnasyni, þáverandi ráðherra, og núverandi formaður VG var í þeirri nefnd. Ég held að þau hafi verið alveg sammála.

Við getum deilt um orðalag til eða frá. Auðvitað er stríðsástandið öryggisógnin. Við þurfum ekkert að ræða þetta, hv. þingmaður. Ef við verðum með flóttamannavandamál í mörg ár hefur það mjög alvarlegar afleiðingar, m.a. þegar kemur að öryggismálum. Það vitum við og höfum séð í gegnum mannkynssöguna. Þess vegna er mikilvægt að við vinnum að þessu með öllum tiltækum ráðum. Við verðum ekki þeir sem munu leiða þessa hluti til lykta, því miður. Við erum ekki í stöðu til þess. En við reynum að láta gott af okkur leiða. Við þurfum ekkert að ræða þetta orðalag, finnst mér.