146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eins ósammála og við erum nú um margt í pólitík finnst mér mikilvægt að finna líka þá fleti þar sem við erum sammála og getum þá unnið með það í sameiningu. En það er líka mikilvægt að tala skýrt um það sem okkur greinir á um og höfum ólíka sýn á og viljum fara ólíkar leiðir í.

Ég tel orðalag skipta máli. Ég tel að því miður sé verið að setja ranga áherslu með því að leggja áherslu á hernaðarlega þætti í varnar- og öryggismálum í sífellt ríkari mæli en ekki að auka framlög til til að mynda þróunarsamvinnu. Það hreinlega er öryggisógn. Hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir spurði ráðherra hvort koma ætti á skrifstofu um öryggis- og varnarmál innan ráðuneytisins. Ég skildi ekki betur en að verið væri að skoða eitthvað slíkt.

Ég vil þá aftur spyrja: Hver er þörfin? Hver eru verkefnin sem þessi skrifstofa ætti að sinna? Hvernig verður hún til þess að takast á við þær stóru áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, til dæmis þegar kemur að flóttamannamálunum? Ef leggja á aukna áherslu á þetta, er í mínum huga verið að forgangsraða peningum í vitlaus mál.