146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Ég er enginn sérstakur aðdáandi voðaverka kommúnista en það er alltaf svo vont að miða við eitthvað slíkt þegar eitthvað hræðilegt er að gerast núna og við þurfum að takast á við það núna Það er svo mikilvægt. Við getum ekki alltaf verið að líta til baka og segja: Þeir gerðu eitthvað slæmt. Það er mjög mikilvægt. (Utanrrh.: Nei, þú misskilur mig.) Já. Nú erum við að horfast í augu við mjög mikla endurtekningu á sögunni. Ég hef áhyggjur af því.

Ég komst ekki yfir allt annað sem ég hef áhyggjur af. Mesta furða að maður nái að sofa á næturnar. Það er hlýnun jarðar og þau áhrif sem við höfum fundið fyrir nú þegar í kringum landið þegar kemur að sjónum í kringum okkur. Þar sem við sjáum ekki nægilega vel ofan í sjóinn gleymist oft að fjalla nægilega ítarlega um þau mál og þær breytingar sem nú eiga sér stað. Bæði er ég að vísa í súrnun sjávar og að það voru bara núna í gær fréttir um enn eina sprunguna í svokallaðri Larsens íshellu á Suðurskautslandinu og allt sem gerist þar hefur miklu meiri áhrif á okkur en það sem gerist á norðurskautinu og ég hef töluvert miklar áhyggjur af þeim möguleika að það gæti hnikað til Golfstraumnum. Við erum með metnaðarfull markmið og vorum eitt fyrsta landið sem samþykkti Parísarsáttmálann en við sýnum það ekki nægilega mikið í verki og mig langar því að spyrja: Mun hæstv. ráðherra vera í nánu samstarfi við umhverfisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti væntanlega upp á að við segjum ekki bara að við lítum svo á að þetta eigi að gera heldur fylgjum því eftir í verki. Við erum að fara að taka við stöðu varðandi norðurslóðir, mikilvægu ábyrgðarhlutverki, og er ekki alveg öruggt að við ætlum að gera eitthvað meira en bara segja hlutina? Mig langar að heyra aðeins um það. Kannski fer ráðherrann yfir það í lokaræðu sinni.