146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:30]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er fámennt en góðmennt. Ég tók eftir því áðan að Píratar voru komnir í meiri hluta í þingsalnum. Það hefði verið upplagt að leggja fram vantrauststillögu eða eitthvað slíkt. En það hefði víst ekki gengið upp. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör hingað til og fyrir að standa vaktina með okkur. Ég neyðist til að bæta við nokkrum spurningum áður en hann fær ritkrampa af því að skrifa þær niður.

Ég ætla að byrja á varnarmálunum. Mér skilst að það þurfi að uppfæra allt ratsjárkerfið sem sér um stóran hluta Atlantshafsins og að það geti kostað 3–4 milljarða. Mér sýnist af skýrslunni að gert sé ráð fyrir að 20–25% af því verði í formi styrkja frá NATO. Ég veit að búið er að sækja um styrk, en það væri fróðlegt að vita hvernig staðan er á þeirri umsókn, sérstaklega í ljósi breyttrar áherslu í varnarmálum vestan hafs almennt. Þá er kannski við hæfi að spyrja í leiðinni hvort haldinn hafi verið einhver sérstakur fundur eða óskað eftir fundi með bandarískum ráðamönnum út af þeirri róttæku breytingu sem orðið gæti á utanríkisstefnu Bandaríkjanna eftir að Trump komst til valda. Hann hefur talað annars vegar um að NATO sé úrelt en um daginn sagði hann hins vegar að hann gæti dregið það til baka, það hefði nú ákveðið hlutverk. Það væri fróðlegt að vita hvort við höfum einhverjar hugmyndir um hvernig við spilum þar inn í í framtíðinni. Hann hefur líka talað um að Bandaríkin eigi ekki að vera að styrkja hernaðarvæðingu annarra ríkja heldur láta þau um það sjálf.

Svo langaði mig líka að spyrja um loftferðarsamninga sem verið er að gera við Rússa. Ef ég kíki aðeins á skýrsluna stendur á blaðsíðu 40 um loftferðasamningana að þessar viðræður standi yfir og að þeim hafi líklega fleytt eitthvað áfram í ljósi fundar sem hæstv. ráðherra og hæstv. forseti Íslands áttu með rússneskum ráðamönnum í Arkhangelsk undir lok mars þar sem þetta hafi m.a. verið rætt.

Þremur, fjórum mánuðum síðar birtist viðtal við Skúla Mogensen, forstjóra Wow air, þar sem hann lýsir því yfir að Wow air sé með Asíu í sigtinu. Það er væntanlega ekki tilviljun. Ég velti fyrir mér hvernig það hafi borið að. Sóttist Wow air sérstaklega eftir því að Ísland fengi slíka loftferðarsamninga? Það stendur í skýrslunni að það myndi valda straumhvörfum fyrir íslenska flugrekendur að fá yfirflugsheimild, geta flogið beint til Kína, Indlands og Japans. Ég velti fyrir mér hvort hann hafi haft veður af þeirri vinnu sem farin var af stað hjá ykkur eða öfugt, eða hvernig því hafi verið háttað.

Svo væri fróðlegt, svo ég bæti endalaust við spurningum, að vita hver staðan er á málaferlum okkar út af vörumerkinu Iceland sem komst í fréttir í fyrra. Þá var talað um að það tæki ár. Það er nú ekki komið heilt ár síðan þetta kom upp en það er bara svo einkennilegt að einhver frystivörumarkaður í Bretlandi geti komi í veg fyrir að við notum vörumerki okkar. Það er svona eins og Steikhúsið Argentína í Reykjavík færi að ybba gogg við yfirvöld í Buenos Aires.

Á bls. 68 í skýrslunni er talað um að gera þurfi rammasamninga. Heildarfjöldi rammasamninga við áherslustofnanir og íslensk borgarasamtök í sambandi við mannúðaraðstoð. Sagt er að núna sé einn rammasamningur í gildi en þeir eigi að fara upp í sex og haldast þar. Ég geri ráð fyrir að það séu einhver sérstök fimm tiltekin atriði sem ættu að vera þarna og var að velta fyrir mér hvaða samtök og stofnanir stæði til að gera rammasamning við.

Svo hafa mér borist fregnir af því að það sé mikið álag á sendiráðum sem sjá um vegabréfsáritanir til Íslands, sem sagt ekki íslenskum sendiráðum. Það hafi jafnvel þurft að fjölga starfsfólki í erlendum sendiráðum til að geta annað eftirspurn eftir vegabréfsáritunum til Íslands sem mun væntanlega aukast enn frekar ef flogið verður beint til Asíu. Ég er að velta fyrir mér hvort það sé einhvers konar langlundargeð í mönnum að leyfa okkur að komast upp með að húkka far með þeim og hvort það sé einhver krafa á okkur um að taka þátt í þeim kostnaði sem þessu fylgir. Ég veit að það er mjög góð reynsla af t.d. sameiginlegu sendiráði Norðurlandanna í Berlín. Tekist hefur um langan tíma að samnýta þá aðstöðu mjög vel. Það er spurning hvort það sé einhvers konar samkomulag í framtíðinni, að við getum þá deilt ekki bara húsnæði heldur jafnvel starfsfólki með þeim ríkjum sem við erum nánust.

Að lokum er það spurning um þennan TTIP-samning. Ég veit ekki hvort hann kallast alræmdur á þessu stigi máls, en hann hefur verið til ... Hann stendur fyrir Trans-eitthvað. Gert var ráð fyrir að hann yrði sleginn út af borðinu þegar Trump tók við völdum, en síðan gaf Paul Ryan, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir repúblikana, í skyn að mögulegt væri að þær umræður yrðu teknar upp að nýju. Við gætum þá mögulega átt aðild að samningnum.

Alveg allra síðast: Nú tökum við við formennsku í Norðurskautsráði 2019. Það er töluverður tími til stefnu en væri gaman að vita hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að við getum notað þau tækifæri sem felast í þeirri tveggja ára formennsku og hvort einhverjar áherslubreytingar verði gerðar miðað við hvernig þetta hefur verið hingað til.