146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið. Þegar kemur að rammasamningum á það að vera almenna reglan. Ég náði ekki að skoða nákvæmlega hvað þarna var verið að vísa í, en það á að vera almenna reglan þegar kemur að viðskiptum okkar við aðila utan ráðuneytisins.

Varðandi vegabréfsáritanir borga menn fyrir þær. Aðrar þjóðir, aðallega Danir, hafa gert það sem við höfum ekki verið með aðstöðu til að gera. En þetta eru peningar inn og út. Þetta á að koma út á núlli. Vandinn hefur verið sá, og ég hef vakið athygli á því í utanríkismálanefnd, að tekjurnar af þessu fara í ríkissjóð en gjöldin eru hjá utanríkisráðuneytinu. Það gengur ekki upp. Við þurfum að stórfjölga þessum stöðum ef við náum loftferðasamningum við t.d. stór ríki í Asíu. Ég hvet þingheim til að fylgjast með því.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sameiginlega sendiráðið í Berlín virkar vel. Það er eitt af því sem við erum að skoða í þeim þáttum þegar kemur að stöðumatinu. Ég hef rætt við kollega mína á Norðurlöndunum um hvernig við getum unnið betur saman. Það eru ýmsar hugmyndir hvað það varðar. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir vísaði í Bangladesh. Þeir munu hins vegar ekki borga með okkur. Til dæmis veit ég að Danir, og flestir, eru með fasteignafélag. Ef við værum með á svæðinu þyrftum við að borga fyrir það. En það geta verið miklir kostir, sérstaklega þegar við erum að byrja einhvers staðar eða fara í eitthvert verkefni, að vera hugsanlega hjá frændþjóðum okkar. Það er vilji hjá öllum þeim kollegum mínum sem ég hef talað við fyrir að Norðurlöndin starfi enn frekar saman. Af því er mjög góð reynsla.

TTIP kemur til vegna þess að menn gáfust upp á WTO/GATT. Við fylgjumst mjög grannt með því, ef það koma viðskiptasamningar og það fer af stað aftur, hvort sem það eru Bandaríkin og Bretland eða Bandaríkin og ESB. Ég vonast til þess að við sjáum viðskiptasamninga sem eru skynsamir í nánustu framtíð. Við erum búin að setja af stað stefnumótun sem almenningur kemur að, það fyrsta sem ég gerði sem ráðherra var að opna slíkan fund, þegar kemur að Norðurskautinu.

Varðandi jarðvarmann þekki ég þau mál aðeins frá fyrri störfum. (Forseti hringir.) Þetta fer allt eftir því hvernig þú gerir þetta. Elsta holan og virkjun er nú á Ítalíu og hún er orðin vel yfir 100 ára gömul en síðan eru slæm dæmi þegar menn fara fram úr sér. Við Íslendingar ættum að þekkja þetta þannig að við getum miðlað af reynslu um hvernig eigi að gera þetta sjálfbært.