146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[18:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra fagnar því mjög að ég stígi í ræðustólinn. Mig langar að byrja að taka undir það sem hér hefur verið nefnt. Ég held að markvissari umræða sem væri brotin niður á málefnasvið utanríkismála væri mjög af hinu góða og myndi dýpka umræðu um utanríkis- og alþjóðamál, bæði um hagsmuni Íslands, sem eru auðvitað gríðarlega miklir og á mjög ólíkum sviðum, en ekki síður um framlag okkar sem þjóðar til heimsins, vegna þess að það er talsvert.

Hér er búið að tæpa á atriðum eins og málefnum kvenna og kvenréttindum, þar sem við höfum staðið okkur gríðarlega vel, sem og réttindum LGBT-fólks. Ég held að það væri gott fyrir okkur sem samfélag að geta tekið umræðu um ólíka málaflokka meira á dýptina. Það er erfitt að ræða um skýrslu sem tekur á svo viðamiklum málum eins og skýrsla hæstv. utanríkisráðherra gerir, þar sem talsmenn þingflokka hafa 15 mínútur og almennir þingmenn 10 mínútur, svo fimm mínútur í viðbót í síðara sinni til að ræða um hana. Það er nú ástæðan fyrir því að ég er hér komin upp í aðra ræðu, þ.e. einmitt vegna þess að þótt ég hafi talað frekar hratt þá náði ég náði hreinlega ekki að tæpa á öllum þeim málum sem mig langaði að tala um í fyrri ræðu minni.

Þess vegna vil ég núna nýta tímann, m.a. til þess að segja, líkt og aðrir hérna hafa lýst hérna, að ég tel að norðurslóðamálin séu mjög mikilvæg. Ég lít mjög spenntum augum til formennskutíðar okkar í Norðurskautsráðinu og vona svo sannarlega að sú formennska okkar verði svæðinu til góðs.

Það var út af þróunarsamvinnunni sem ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég tel hana vera mjög mikinn grundvöll friðar og öryggis í heiminum. Það hefur auðvitað margoft komið fram að ég er ósátt og óánægð með að Ísland leggi ekki meira til þróunarsamvinnu en við höfum gert undanfarin ár og finnst að sú stefna sem mörkuð hefur verið í ríkisfjármálaáætlun sé ekki nógu metnaðarfull. Ég vil að meira sé gert til þess að við náum því markmiði sem ríkar vestrænar þjóðir hafa sett sér, þ.e. að setja 0,7% af landsframleiðslu sinni í þróunarsamvinnumálin. Það eru ekki bara peningarnir sem skipta máli heldur auðvitað líka hvernig þeim er varið.

Hæstv. ráðherra hefur talað um tvennt sem hann vill leggja áherslu á þegar kemur að þróunarsamvinnu. Hann hefur þar talað um sérþekkingu Íslands á fiskveiðum og á sviði jarðvarma. Mér finnst mjög eðlilegt að við leggjum áherslu á það sem við erum góð í, ef svo má segja. Svo hefur ráðherra líka talað um nauðsynlega aðkomu einkafyrirtækja og atvinnulífsins. Ég lýsti yfir áhyggjum mínum í umræðum í þessum sal þegar verið var að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður, um að það mætti aldrei verða til þess að aðstoðin sem veitt væri yrði á forsendum ríkisins sem veitti hana, þ.e. á forsendum hins ríka. Ég vil halda því sjónarmiði til haga við hæstv. ráðherra.

Svo vil ég líka leggja áherslu á það og spyrja út í hvort það eigi nokkuð að slá slöku við í því að efla félagslega innviði. Það eru kannski ekkert mörg spennandi verkefnin sem við styrkjum sem erum langt í burtu, að byggja kamra eða grafa brunna, en þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir þær þjóðir sem við höfum verið að aðstoða og verið í samvinnu við (Forseti hringir.) um þessi mál. Ég vil að halda þeim sjónarmiðum til haga og (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra hvort það eigi nokkuð að slaka á í félagslegu innviðamálunum.