146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

norræna ráðherranefndin 2016.

474. mál
[18:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir seinna andsvarið. Ég vil nota tækifærið og hvetja hv. þingmann til að hafa — af því að ég held að enginn þekki umræðuna betur en hv. þingmaður sem komið hefur að þessu samstarfi ekki bara í mörg ár heldur áratugi. (AIJ: Aldir.) Hv. þingmaður kallar: Aldir. Ég sagði það ekki. Það var ekki ég sem sagði það, það var samflokksmaður hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. En ég held að við eigum að gefa þessu meiri gaum, eins og við ræddum áðan í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra. Við gerum það best með því að ræða þetta sérstaklega í þinginu.

Ég er nokkur áhugamaður þegar kemur að þeim skiptingum sem hv. þingmaður nefndi varðandi fjárheimildir. Mín upplifun er sú að nú séum við komin á þann stað að við getum nýtt norrænt samstarf betur en við höfum gert áður. Ég held að áhuginn sé miklu meiri en áður. Áhuginn er til kominn vegna þess að menn sjá hvað það er afskaplega skynsamlegt. Það finn ég hjá norrænum kollegum mínum. Heimurinn getur sagt manni að stækka og minnka en margar af þeim þjóðum sem við viljum eiga samskipti við þekkja Norðurlöndin sem heild en ekki einstök lönd. Þess vegna er mjög rökrétt að við vinnum þétt saman og væntanlega er besti vettvangurinn til að gera það í Norðurlandaráðinu þar sem maður kemur með þingmannatengsl og tengingar inn í löggjafarsamkomuna og jafnvel framkvæmdarvaldið.

Varðandi Færeyjar: Ég verð að segja eins og er að frá því að ég byrjaði í stjórnmálum hef ég stutt frændur okkar Færeyinga í öllu milli himins og jarðar og hefur alltaf liðið vel með það. Ég sé enga ástæðu til að fara að breyta þeirri stefnu.