146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Vestnorræna ráðið 2016.

324. mál
[18:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er mér heiður að fá að standa hér sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og forseti Vestnorræna ráðsins og flytja skýrslu ráðsins, reyndar frá síðasta ári þegar ég naut ekki þess heiðurs að sitja í því ágæta ráði. Ég vona að mér takist ágætlega að fara yfir þessa ágætu skýrslu, en sé að í þingsalnum er líka varaformaður ráðsins sem hefur öllu meiri reynslu en ég af þessu starfi, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þannig að ég vænti þess að hún komi og fylli í eyðurnar.

Byrjum á því að fjalla aðeins um Vestnorræna ráðið. Það rekur sögu sína til ársins 1985 þegar lögþing Færeyinga, landsþing Grænlands og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið, en heitinu var síðan breytt í Vestnorræna ráðið árið 1997. Markmið Vestnorræna ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleifð Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður vestnorrænna samstarfsaðila.

Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo fátt eitt sé nefnt. Ráðið kemur saman tvisvar á ári til ársfundar, yfirleitt í ágúst eða byrjun september og til þemaráðstefnu í janúar. Ársfundurinn er með æðsta ákvörðunarvald ráðsins og forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins skipuleggur verkefni og störf ráðsins milli ársfunda.

Í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins á árinu 2016 voru aðalmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var formaður, Páll Jóhann Pálsson, sem var varaformaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Páll Valur Björnsson og Þorsteinn Sæmundsson. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu auk þess að taka þátt í ýmsum viðburðum.

Ársfundur ráðsins fór fram á Grænlandi dagana 21.–24. ágúst. Í yfirlýsingu ársfundar hvatti ráðið stjórnvöld á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi til að vinna sameiginlega að rannsókn og umfangi plasts í Norður-Atlantshafi og ekki síst áhrifum þess á lífríki hafsins. Stjórnvöld landanna þriggja eru jafnframt hvött til þess að vinna saman að því að draga úr notkun plasts og örplasts á vestnorræna svæðinu og stefna að allsherjarbanni á notkun örplasts. Jafnframt eru stjórnvöld hvött til að vekja upp umræður um skaðsemi örplasts alþjóðlega og hvetja önnur lönd til að banna notkun þess.

Ráðið fagnaði einnig yfirlýsingu utanríkisráðherra landanna þriggja frá 22. ágúst 2016 um að kannaðir yrðu kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Yfirlýsing ráðherra er í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2015 og ráðið fagnar því að málið sé loksins komið í réttan farveg hjá stjórnvöldum landanna þriggja. Einnig óskaði ráðið eftir því að áætlaður árlegur fundur utanríkisráðherranna færi fram samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins. Næsti ársfundur Vestnorræna ráðsins fer einmitt fram í þessum sal síðla í ágúst á árinu.

Þemaráðstefna ráðsins var haldin á Íslandi, í Grindavík, dagana 30.–31. janúar. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar var möguleikar þingmanna til að hafa aukin áhrif á málefni norðurslóða, bæði innan þjóðþinga, gagnvart framkvæmdarvaldinu og alþjóðlega. Samhliða þemaráðstefnunni hélt Vestnorræna ráðið aukaársfund og þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn fundaði.

Það eru þrjár ályktanir sem liggja inni frá Vestnorræna ráðinu frá þemaráðstefnu, aukaársfundi og ársfundi. Það er ályktun nr. 1 frá 2016, um stuðning við umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, nr. 2 er greining á fýsileika þess að setja á fót vestnorræna eftirskóla og nr. 3 um sameiginlega ráðstefnu um stöðu vestnorrænu landanna í nýjum landfræðipólitískum veruleika. Ekki hafa allar ályktanirnar komið fram á þingi, en þeirra er að vænta núna í haust.

Ég vil jafnframt geta þess að ársfundinum var samþykkt að styðja tillögu Eyglóar Harðardóttur, þáverandi velferðarráðherra, um að halda vestnorræna kvennaráðstefnu á Íslandi á árinu 2016. Sú ráðstefna hefur ekki átt sér stað, en mér skilst að enn sé verið að vinna með þær hugmyndir innan ráðuneytisins. Ég fagna því mjög.

Aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa að málefnum norðurslóða var efst á baugi á vettvangi ráðsins, skiljanlega. Á aukaársfundinum var samþykkt að ráðið tæki boði Hringborðs norðurslóða um formlegt samstarf við Vestnorræna ráðið.

Vestnorræna ráðið er með umsókn hjá norðurslóðaráðinu um áheyrnaraðild. Við teljum að mikilvægt sé að þjóðkjörnir þingmenn norðurslóða hafi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem snertir réttindi og hagsmuni íbúa vestnorræna svæðisins. Áheyrnaraðildin væri þá liður í að styrkja samstarf landanna um málefni norðurslóða og treysta stöðu Vestnorræna ráðsins gagnvart alþjóðlegu samstarfi um málefni svæðisins.

Ég held ég láti yfirferð minni lokið að svo stöddu. Ég hvet þingheim til að kynna sér skýrslu ráðsins.