146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

norðurskautsmál 2016.

321. mál
[19:36]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2016. Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2016 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi verið í brennidepli.

Fyrst ber að nefna tólftu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Ulan-Ude í Rússlandi 9.–11. júní. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu.

Á ráðstefnu þingmannanefndarinnar voru þrjú meginþemu valin af nefndarmönnum til sérstakrar umræðu og skýrslugerðar. Í fyrsta lagi var rætt um mannlífsþróun á norðurslóðum og sjónum m.a. beint að sjálfbærni og skyldu okkar til að huga að komandi kynslóðum með ábyrgð og nærgætni gagnvart umhverfinu að leiðarljósi. Í öðru lagi var rætt um samstarf á norðurslóðum í ljósi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París í desember 2015. Lögð var áhersla á hlutverk stjórnvalda á norðurslóðum og mikilvægi þess að tryggja framtíð svæðisins sem heimilis íbúa þess. Í þriðja lagi fór fram umræða um ný tækifæri á norðurslóðum. Í umræðum og niðurstöðum skýrslu um efnið lögðu nefndarmenn megináherslu á mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru svæðisins.

Í yfirlýsingu tólftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar er tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir því að skoðaðar verði nýjar leiðir til að virkja áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og losun kolefna. Einnig er lögð áhersla á nauðsyn þess að viðhalda sterku alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum til að stuðla að áframhaldandi friði og stöðugleika á svæðinu. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt, eflingu Norðurskautsráðsins og mikilvægi jafnréttismála á norðurslóðum.

Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2016 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins og ferðaþjónustu á norðurslóðum.