146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

NATO-þingið 2016.

322. mál
[19:39]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Sem formaður Íslandsdeildar NATO ætla ég að fara í örstuttu máli yfir skýrslu Íslandsdeildarinnar fyrir árið 2016 og lesa úr inngangi skýrslunnar:

Á vettvangi NATO-þingsins árið 2016 bar hæst óstöðugleikann í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu flóttamanna til nágrannasvæða og Evrópu og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum. Lögð var áhersla á þann vanda sem blasir við nágrannaríkjum Sýrlands við móttöku flóttamanna og ákvörðun NATO um að veita stuðning við flóttamannavandann í Eyjahafi.

Jafnframt var baráttan gegn hryðjuverkum í brennidepli á árinu og vaxandi áhrif hryðjuverkasamtaka eins og íslamska ríkisins. Hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember 2015 og í Brussel í mars 2016 juku enn á áhyggjur aðildarríkjanna og leiddu m.a. til aukins þunga í sameiginlegri baráttu Bandaríkjanna og Evrópu gegn hryðjuverkum. Áhersla var lögð á þær áskoranir sem fylgja því að takast á við hryðjuverkastarfsemi sem er skipulögð á Vesturlöndum og fjármögnun hennar.

Þá var rík áhersla lögð á ástandið í Úkraínu og kólnandi samskipti NATO og Rússlands eftir hernaðaraðgerðir Rússa í landinu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 voru afgerandi og greiddi stjórnarnefnd þingsins einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Áhersla var lögð á samstöðu með íbúum Úkraínu og að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Samskipti NATO við Rússland hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi. Í umræðum nefndarinnar var þó lögð áhersla á mikilvægi samræðna milli Rússa og NATO-þingsins.

Umræða um aðgerð NATO í Afganistan, sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins, var áberandi á árinu eins og undanfarin ár, ekki síst í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu við árslok 2014. Vel hefur gengið að byggja upp innlendar öryggissveitir sem hafa tekið við stjórn öryggismála í landinu. Eftir brottför fjölþjóðahersins þarf engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi. Til að bregðast við því hófst verkefnið „Einarður stuðningur“ í janúar 2015 og átti að standa yfir í tvö ár.

Þá var áhersla lögð á að draga þyrfti úr niðurskurði á fjármagni til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna. Nauðsynlegt væri að auka fjárframlög til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússum. Enn fremur var rætt um útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar 2016 má nefna samstarf og stefnu um að opna fyrir nýjum aðildarríkjum, kjarnorkuáætlun Írans, málefni Kína og spillingu og áhrif hennar á öryggi ríkja. Jafnframt hefur NATO-þingið fylgst vel með þeim málum sem hafa verið ofarlega á baugi í alþjóðlegri öryggismálaumræðu utan sem innan bandalagsins og snerta m.a. orkuöryggi, öryggi upplýsingakerfa eða netöryggi, eldflaugavarnir, baráttuna við áróðursárásir gegn vestrænum samfélögum og mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum óróa og breytinga í landfræðipólitík og alþjóðastjórnmálum.

Þetta stóð í inngangi skýrslunnar. Í Íslandsdeild NATO 2016 sátu Þórunn Egilsdóttir formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn. Fjöldi fulltrúa ræðst að mestu af fólksfjölda í hverju landi. NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, annars vegar vorfund og hins vegar ársfund að hausti. Svo er efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel sem eru hefðbundnari en minni fundir.

Vorfundur árið 2016 var haldinn í Tírana og sótti Íslandsdeildin þann fund. Eiginlegur þingfundur NATO-þingsins fór þar fram 30. maí. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og óskaði Svartfellingum sérstaklega til hamingju með aðild að NATO, en Ísland var einmitt fyrsta landið til að samþykkja Svartfjallaland inn í NATO og eru þeir mjög þakklátir fyrir.

Undir skýrsluna rita síðan undirrituð, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson. Við erum á leiðinni á vorþing NATO í Tíblisi í lok mánaðarins. Ég hlakka til að starfa fyrir þessa deild NATO-þingsins og læt máli mínu lokið.