146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:33]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að sitja atvinnuveganefndarfund í morgun. Eins og við vitum öll var stofnaður samráðshópur um fiskveiðistjórnarkerfið og það er vel, það er gott og við bindum öll vonir við það. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt er gert. En að málefnastaðan sé orðin þannig að menn séu að reyna að fækka málum handvirkt á dagskrá með því að stinga upp á því við minni hlutann á þinginu að draga mál til baka sem tengjast þessum málaflokki finnst mér algjörlega út í hött og ekki boðleg vinnubrögð og ég geri þess vegna miklar athugasemdir við það.