146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ekki fyrr búið að losa sig við eina snjóhengjuna en önnur tekur við. Nú eru það uppsöfnuð mál sem hafa komið allt of seint inn á þingið. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Egilsdóttur að það er náttúrlega óboðlegt að beðið sé sérstaklega um það að mál séu tekin af dagskrá. Og út af hverju? Vegna þess að það eigi að ræða þau í nefnd sem ráðherra hefur skipað? Er það þannig að þingmenn, og er það skilningurinn á þingræðinu, eigi að draga sig inn í híði, leggja niður skottið og bíða bara eftir því hvað nefndir út í bæ ákveða? Við lítum svo á að þetta mál sé innlegg í þá umræðu og við krefjumst þess að það verði á dagskrá.