146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:35]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með tveimur hv. ræðumönnum sem hingað hafa komið undir liðnum um fundarstjórn forseta um að það er algjörlega óboðlegt að hæstv. ráðherrar geti bara skipað nefndir og síðan koma samherjar þeirra í ríkisstjórn og biðja fólk vinsamlegast um að draga sín góðu mál til hliðar — bara af því bara. Ég hélt að hérna væri þingræði og að það væri lögbundin skylda þingnefnda og þingsins að eiga umfjöllun um mál sín en ekki að það færi eftir hentisemi hæstv. ráðherra hverju sinni.

Við Píratar erum með eitt slíkt mál til umræðu í hv. atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða og ég óska þess að forseti muni beita sér fyrir því að það verði tekið á dagskrá eins og öll önnur mál sé þess óskað en ekki tekið út af dagskrá, einfaldlega af því að það er einhver ráðherranefnd sem vinnur úti í bæ. Mér finnst það algjörlega ólíðandi.