146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér koma fram. Ég lít svo á að nú hafi formaður nefndarinnar einfaldlega farið á undan sér. Það er útilokað að þinglegri meðferð mála sé hætt vegna þess að nefnd hefji störf á vegum ráðherra. Ég trúi því eiginlega ekki að nokkur hafi gert slíka tillögu með fullri meðvitund. Hér erum við annars vegar að tala um nefnd um fiskveiðistjórnarkerfið sem er á vegum ráðherra og það er gott og mikilvægt, en það þýðir ekki að þinglegri meðferð mála sé frestað eða þeim ljúki eða mál séu sett til hliðar eða eitthvað slíkt.

Ég vænti þess að forseti fari yfir þessi mál með stjórnarmeirihlutanum, væntanlega þá formanni atvinnuveganefndar og þeim ráðherra sem um ræðir, og leiðrétti þetta og komi mönnum í skilning um að þingið heldur áfram sínum störfum óháð þeim nefndum sem eru að störfum á vegum ráðherra hverju sinni.