146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Skrýtið að vera í þingsal í dag þar sem er verið að fjalla um mjög alvarlega misbeitingu valds frá meiri hlutanum og þeir þingmenn sem um málið fjalla sitja og hlæja að þingmönnum sem gagnrýna þessi vinnubrögð. Mér finnst það eiginlega til háborinnar skammar, forseti.

En mig langar bara að segja að það er ekki hægt að haga málum þannig að fyrir fram sé búið að ákveða niðurstöðu þessarar nefndar. Það er gott að fjalla eigi um þessi mál enn og aftur úti í bæ í nefnd sem skipuð er af ráðherra, en það þýðir ekki að það sé komið samráð eða að það sé komin einhver niðurstaða. Það er ekki þannig. Við Píratar krefjumst þess að mál okkar fái sinn eðlilega framgang í þinginu sem og önnur mál sem eru í atvinnuveganefnd. Ég óska þess að hv. formaður nefndarinnar átti sig á því að við getum alveg fyrirgefið einhvers konar nýherjabrag í nefndarstjórn, (Forseti hringir.) en ég vonast til þess að hv. formaður nefndarinnar sjái villur síns vegar.