146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég held að formaður atvinnuveganefndar hafi gert mjög vel grein fyrir máli sínu, hvernig því var háttað í morgun. Ég kem hingað upp til að bera af mér sakir af því að ég heyri að hv. þingmenn, t.d. frá Pírötum, segja að þetta hafi m.a. verið fyrirskipun úr ráðuneytinu. Hitt er annað að ég vil benda á og vara við því að menn tali þverpólitísku nefndina niður sem ég skipaði í gær. Ég vek athygli á því að ekki er verið að skipta eftir stjórn eða stjórnarandstöðu, allir flokkar koma að borðinu. Þá hefur mér verið bent á, gott og vel, að stjórnarandstaðan hafi meiri hluta í nefndinni. Ég vona að menn gangi út frá því að þeir ætli að vinna að málinu í sátt til lengri tíma litið með heildarhagsmuni bæði sjávarútvegs og samfélagsins í huga hvað það varðar, en ekki fara í hnútukast eins og mér finnst málið svolítið vera að fara í hér.

Ég tek undir að það er mikilvægt að þingmál, hvort sem þau eru frá stjórn eða stjórnarandstöðu, hljóti þinglega meðferð. (Forseti hringir.) Mér þætti t.d. ágætt ef mál frá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um strandveiðarnar færi í þinglega meðferð og færi til umsagnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það mun nýtast okkur í allri uppbyggingu og stefnumótun varðandi greinina til lengri tíma litið.