146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

beiðni um að þingmenn dragi mál til baka.

[13:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt og ég þakka hv. formanni atvinnuveganefndar að fara hingað upp og skýra að það hafi ekki verið ætlun hans að taka þessi mál af dagskrá. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt af hálfu okkar í minni hlutanum að hafa áhyggjur þegar slíkt er borið upp. Í upphafi þings var lögð fram heilbrigðisáætlun af hálfu hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir hönd okkar Framsóknarmanna. Þá brást stjórnarmeirihlutinn við með því að hlaupa til hv. þingmanns og segja að það væri nú óþarfi að leggja þetta fram því ríkisstjórnin væri með svona mál í smíðum, þó svo að það hafi nú ekki enn borist, hvorki á þingmálalista né inn í þingið.

Nú má vel vera að þetta sé eitthvert nýjabrum, ný stjórn og nýir þingmenn sem ekki þekkja til verklagsins hér. En það er fullkomlega eðlilegt af okkur að bregðast við og fá skýr svör. Ég vil bara þakka fyrir að þau hafi borist.