146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

sameining Tækniskólans og FÁ.

[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður sem hér talaði hefur kallað eftir að menn geri greinarmun á því þegar þjónusta sem greitt er fyrir með opinberum framlögum er rekin annars vegar í hagnaðarskyni og hins vegar án hagnaðaráforma. Ef hægt er að finna fyrirtæki sem eru með einhver hagnaðaráform leggst hv. þingmaður almennt gegn því að þau sinni opinberri þjónustu, heyrist mér, en hins vegar þegar um er að ræða stofnanir, samtök, einhvers konar félag utan um opinbera þjónustu sem ekki er rekin í hagnaðarskyni hef ég skilið hv. þingmann þannig að hann leggist ekki almennt gegn því.

Er ekki Tækniskólinn akkúrat slíkt fyrirbæri? Er ekki Tækniskólinn rekinn að mestu fyrir opinbert fé án þess að þar séu uppi einhver hagnaðaráform? Hvers vegna leggst þá hv. þingmaður, sem hefur talað svona og lagt mikið upp úr því að menn geri greinarmun á þessu tvennu, líka gegn því að skóli með það rekstrarfyrirkomulag geti tekið að sér aukið hlutverk? Hvar erum við fyrst og fremst að reyna að sækja fram almennt séð í menntamálum í þessu landi? Eigum við ekki að beina sjónum okkar að gæðum þjónustunnar, að því hvernig námsframvinda unga fólksins í landinu er, hvort við erum að komast í betri færi til að vera samkeppnisfær við aðrar þjóðir? Skiptir það ekki máli ef við erum hér með veikar rekstrareiningar? Hefur ekki menntamálaráðherra talað fyrir því að rekstrareiningarnar sem hér eiga í hlut geti náð betri árangri í átt að þessum sameiginlegu markmiðum sem ég tel að við höfum með því að fella reksturinn saman í einn? Eða á rekstrarfyrirkomulagið, form félagsins eða þess aðila sem stendur að baki Tækniskólanum, sem vill svo til að er að hluta til vinnumarkaðurinn á Íslandi, að ráða öllu?

(Forseti hringir.) Ég segi: Við skulum beina sjónum okkar meira að útkomunni, því sem gerist í skólastarfinu sjálfu og hvernig það gagnast krökkunum í skólunum. (Gripið fram í.)