146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

sameining Tækniskólans og FÁ.

[13:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra er enn staddur í síðustu fyrirspurn sem ég bar upp áðan sem snerist um arðgreiðslur úr heilbrigðiskerfinu.

Ég var bara með einfalda spurningu. Hv. þingmenn á Alþingi fréttu af fyrirkomulagi um breytt rekstrarform á Fjölbrautaskólanum við Ármúla í fjölmiðlum. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra … (Gripið fram í.) Já, það er verið að færa hann yfir í einkarekstur og þetta er almannaþjónusta. Hæstv. forsætisráðherra verður aðeins að slaka á hérna.

Finnast hæstv. forsætisráðherra það eðlileg vinnubrögð að í nafni gagnsæis og góðra stjórnunarhátta sem þessi ríkisstjórn sem hæstv. forsætisráðherra leiðir, boðar sérstaklega og talar sérstaklega fyrir, sé þannig staðið að málum?

Hins vegar kalla ég eftir því hvort það sé einhver framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn að gera þetta í auknum mæli. Þetta snýst ekkert um gæði starfs Tækniskólans, sem eru mikil, og þetta snýst heldur ekki um veikburða rekstrareiningar, og hæstv. forsætisráðherra veit það. Það er ekki eins og Fjölbrautaskólinn við Ármúla með sína 900 nemendur sé veikburða rekstrareining sem þurfi að sameina öðrum skóla. Þar er mjög gott starf unnið og mikil gæði. Við erum að spyrja hér einfaldrar spurningar: Liggur fyrir einhver framtíðarsýn? Finnst hæstv. forsætisráðherra virkilega ekki eðlilegt að hafa meira samráð í ljósi stöðu þessarar ríkisstjórnar? (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.)