146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

sameining Tækniskólans og FÁ.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður kallar það að skoða skólastarf í Tækniskólanum einkavæðingu almannaþjónustu, sem er alveg stórundarleg nálgun. Hv. þingmaður, sem ráðherra, skrifaði sjálf undir samning við Tækniskólann (Gripið fram í.) um það starf sem þar fer fram. Hér verða menn aðeins að ná að halda aftur af sér.

Varðandi það hvort verið sé að boða stóraukna einkavæðingu almannaþjónustu er svarið ósköp einfaldlega: Nei. En það er alveg stórundarlegt á hinn á bóginn að nálgast þetta mál út frá því að verið sé að einkavæða almannaþjónustu, vegna þess að svo er ekki. (Gripið fram í.) Þetta er algjörlega fráleit nálgun hjá hv. þingmanni, það er vandamálið.

Það sem við viljum gera er að við viljum hámarka nýtingu skattfjár og við viljum horfa á útkomuna. Við viljum horfa á þátt sjúklinganna, hvernig þeir komast frá þjónustunni, og við erum að gera það sama í menntakerfinu, alveg eins og hv. þingmaður gerði sem ráðherra þegar hún skrifaði sjálf undir samning við Tækniskólann.

Varðandi samráðsleysið þá er málið í skoðun í ráðuneytinu og engin ákvörðun hefur endanlega verið tekin. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að ráðherrann geri grein fyrir málinu fyrir nefnd í þinginu, sem hefur verið gert. Ekki satt? (Forseti hringir.) Mér finnst afskaplega holur hljómur í þessu tali um samráðsleysi vegna ákvarðana sem hafa ekki enn verið teknar.