146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

framlög til framhaldsskólanna.

[14:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það sem prýðir góðan fimleikamann er úthald og styrkur. Pólitískir loftfimleikar snúast hins vegar yfirleitt um undanbrögð eða tilraun til að kúvenda í stefnumálum. Í fjármálaáætlun 2017–2021 segir, með leyfi forseta:

„Á sama tíma er gert ráð fyrir að fram komi umtalsverður rekstrarsparnaður í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma úr fjórum árum í þrjú. Áætlunin gerir ráð fyrir að allur sá sparnaður sem muni falla vegna styttingarinnar muni haldast innan kerfisins og fari í að efla framhaldsskólastigið enn frekar.“

Í nýrri fjármálaáætlun segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Eins og í fyrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að umtalsverður sparnaður komi fram í framhaldskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú og sá sparnaður endurspeglast í lægri framlögum til málefnasviðsins.“

Það er því ljóst að það er búið að plata framhaldsskólana til að vera með á þessari vegferð undir því yfirskini að það eigi að styrkja þá. Það var í rauninni löngu tímabært því að í nýrri fjármálaáætlun segir, á bls. 265 ef hæstv. ráðherra kann hana ekki utan að, að undirfjármögnun bitni á gæðum, námsframboði og kennslubúnaði.

Mér er auðvitað ljóst að hér hefur orðið breyting á ríkisstjórn. En hefur hæstv. ráðherra núna loksins tekist að snúa stóra bróður niður í duftið og láta Sjálfstæðisflokkinn kyngja þessari stórfelldu stefnubreytingu í málaflokknum?

Mig langar að vita hvort ráðherra telur að þetta séu forsendubreytingar í samkomulagi við skólana, hvort hann sé stoltur af þessu og hvort hann sé sáttur við hlut sinn og skólanna í fjármálaáætluninni.