146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil ræða hér við hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Jón Gunnarsson, sem einnig er ráðherra byggðamála, um innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Allir flokkar töluðu um það fyrir síðustu kosningar að brýn nauðsyn væri á að efla innviðauppbyggingu í landinu og að verulega þyrfti að auka fjárframlag til vegamála og í aðrar samgöngubætur sem verið hafa fjársveltar allt of lengi. Uppsöfnuð viðhaldsþörf vegna niðurskurðar undanfarinna ára er metin af Vegagerðinni á 60 milljarða og haft hefur verið eftir vegamálastjóra að vegakerfið sé mjög illa farið. Ef einungis ætti að horfa til kostnaðar vegna viðhalds á ári væru það 9,5 milljarðar. Ætla má að uppsöfnuð fjárfestingarþörf síðustu ára sé orðin um 500 milljarðar miðað við 1,5–2% af landsframleiðslu, en frá árinu 2009 hefur það hlutfall verið 1%.

Fjármuni skortir til hafnarframkvæmda og til viðhalds flugvalla. Til dæmis vil ég nefna að Þingeyrarflugvöllur, sem er varaflugvöllur fyrir Ísafjörð, nýtist ekki vegna skorts á viðhaldi. Fjárfestingar í öðrum flugvöllum drabbast einnig niður vegna skorts á viðhaldi en frekar ætti að nýta þessar fjárfestingar til að styrkja ferðaþjónustu og byggð á landsbyggðinni. Héraðsvegir og tengivegir eru víða í slæmu ásigkomulagi og samgöngur í heilu landshlutunum eru áratugum á eftir samgöngum sem teljast ásættanlegar á 21. öldinni. Ég ætla ekki að fara að telja upp alla þá vegi í landinu sem liggja undir skemmdum eða þær nýframkvæmdir sem hafa allt of lengi verið á samgönguáætlun en ekki komist í framkvæmd, því að það væri að æra óstöðugan.

Þau landsvæði og þeir staðir sem búa við lélegar samgöngur vita hvar skórinn kreppir og Vegagerðin hefur það allt kortlagt og hefur sent út ákall til stjórnvalda um stóraukið fé til samgöngumála. Vissulega er sá gleðiatburður fram undan að loksins á að hefja vinnu við gerð Dýrafjarðarganga sem beðið hefur verið eftir allt of lengi og því ber vissulega að fagna. Fjármagn til samgöngubóta snýst ekki bara um vegina og það að komast á milli staða, heldur liggur þar undir gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu, atvinnu, menntun og menningu og félagslífi og öllum þeim eðlilegu lífsgæðum sem íbúar landsins gera kröfu um í nútímasamfélagi. Skortur á sterkum innviðum hefur staðið jákvæðri íbúaþróun og fjölbreyttum atvinnutækifærum á landsbyggðinni fyrir þrifum. Mörg landsvæði búa því miður við viðvarandi fólksfækkun sem bregðast þarf við með uppbyggingu innviða og jöfnun búsetuskilyrða.

Styttri vegalengdir milli byggðarlaga skapa möguleika á sterkari búsetusvæðum og styðja við aðra innviðauppbyggingu. Ef raunverulegur vilji er til að gera landsbyggðina samkeppnishæfa um fólk og fyrirtæki eru góðar samgöngur ein grunnstoð þess að það gangi eftir. Gífurleg fjölgun ferðamanna til landsins hefur gert að verkum að enn meira álag og slit er á vegakerfinu og slysagildrur eru víða og mikil hætta skapast oft vegna lélegra vega og stórhættulegra einbreiðra brúa.

Það þarf að spýta í lófana. Þá er ég að tala um viðhald vega, nýframkvæmdir, almenningssamgöngur, flugsamgöngur, hafnarframkvæmdir, fjarskipti og uppbyggingu á háhraðatengingum við alla landsmenn. Fjárveiting til samgöngumála árið 2017 nemur um 33 milljörðum með viðbótarframlagi, fjármálaáætlun til fimm ára bætir í raun ekki nema 1 milljarði við þann ramma þar sem stærsti hlutinn er viðbótin sem felst í því að gera hana varanlega.

Ég vil leggja fyrir hæstv. ráðherra eftirtaldar spurningar: Hvernig rúmast innviðauppbyggingin innan fjármálastefnu og fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar næstu árin? Hver verður forgangsröðun í innviðauppbyggingu næstu árin? Verður gert átak í að flýta samgöngubótum, svo sem í vegamálum, höfnum, flugvöllum, flutningskerfi raforku og háhraðatengingu til allra landsmanna? Og að lokum: Verða þeir landshlutar sem aftast eru á merinni hvað varðar innviðauppbyggingu látnir njóta forgangs í uppbyggingunni?

Í fjármálaáætlun virðist ekki vera tekið tillit til ólíkrar stöðu landshlutanna hvað varðar efnahagslega eða samfélagslega þróun og til þeirra hættumerkja sem víða eru í búsetuþróun ef veruleg innspýting verður ekki í samgöngubætur og aðra innviðauppbyggingu.