146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er mikið til í því sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það kreppir víða skórinn í innviðauppbyggingu í landinu. Spurt er hvort og hvernig innviðauppbygging rúmist innan fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlunar sem liggur fyrir þinginu. Menn geta eflaust deilt um það hvort og hvenær menn geta sagt að það hefjist eitthvert nýtt átak í þeim málum, en fram hjá því verður ekki horft að framlög til þessara málaflokka eru aukin umtalsvert á þessu ári frá því sem verið hefur. Reyndar er einna mesta aukningin, ekki þó sú allra mesta, eins og maður hefði viljað sjá, einmitt í þennan málaflokk frá því sem áður hefur verið. Það munar um þá 5,7–5,8 milljarða sem við erum að auka framlög um til samgöngumála á þessu ári frá því sem áður hefur verið. Það kreppir víða skórinn, eins og ég sagði, og hægt að skoða þessi verkefni og sjá að það verður mikið átak og mikil áskorun að takast á við það að ná í skottið á okkur, eins og ég hef áður sagt. Það er þess vegna sem við erum að skoða mögulegar aðrar leiðir í þessu.

Forgangsröðunin í samgöngumálum mun auðvitað taka mið af þeim samgönguáætlunum sem verða lagðar fyrir þingið á næsta þingvetri. Það er því þingið sem mun leggja línurnar í þeim efnum. Í fjarskiptamálum er búið að marka stefnu til ársins 2020 þar sem reiknað er með að nánast öll heimili landsins verði orðin ljósleiðaratengd. Það er gríðarlega mikið og mikilvægt mál og mun gjörbreyta búsetuskilyrðum úti um allt land og skilyrðum til atvinnuuppbyggingar. Á síðasta þingi var fjallað um framtíðarfjárfestingu í íslensku atvinnulífi og það er gríðarlega mikilvægt að horft sé til þess þegar við hugum að innviðauppbyggingu að skapa tækifæri og svigrúm fyrir uppbyggingu í atvinnulífi almennt, vegna þess að uppbygging innviða helst í hendur við það að reyna að skapa réttar aðstæður fyrir uppbyggingu í atvinnulífi.

Í þeirri stefnu sem þar var mörkuð varðandi nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi náðist víðtækur meiri hluti á þingi þar sem ég og m.a. hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skrifuðum undir sameiginlegt nefndarálit. Þar er einmitt tekið á mikilvægi þessarar innviðauppbyggingar til að treysta búsetuskilyrði, byggðafestu og sköpun fyrir ný og fjölbreytt atvinnutækifæri í ljósi þess að við gerum okkur grein fyrir því að þær atvinnugreinar sem hafa verið meginuppistaðan í byggðafestu hér á undanförnum áratugum og jafnvel öldum, sjávarútvegur og landbúnaður, munu ekki gegna því hlutverki með sambærilegum hætti á komandi tímum þar sem miklu færri hendur búa til miklu meiri verðmæti.

Það er því líka ánægjulegt að horfa til þeirrar vinnu sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur verið að setja af stað varðandi t.d. þrífösun rafmagns til sveita og uppbyggingu dreifikerfis raforku, sem er gríðarlega stór þáttur í þessu. Það má segja að það séu þrjár meginstoðir þegar kemur að innviðauppbyggingunni, það er auðvitað samgöngukerfið, það er fjarskiptakerfið og svo dreifikerfi raforku. Það er einn af þeim þáttum sem við getum séð fyrir endann á, eins langt og það nær, með fjarskiptin en það vantar heilmikið upp á aðra þætti, bæði í dreifikerfi raforku og í samgöngukerfinu. Ég held að ef við horfum til þeirra verkefna sem bíða okkar á þessum vettvangi og horfum til umferðaröryggis og þess sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan um að þetta mikla álag sem skapast hefur m.a. vegna aukins ferðamannastraums í landinu sé mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því að jafnvel þó að framlög úr ríkissjóði yrðu stórkostlega aukin frá því sem nú er, langt umfram þessa þó miklu aukningu sem varð á milli ára, er við risastórt verkefni að etja.

Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að taka um þetta málefnalega umræðu, (Forseti hringir.) hvernig við getum nálgast það að ráðast í mjög stórar, fjárfrekar framkvæmdir þar ruðningsáhrifin gætu orðið þau að við getum dreift framlögum úr ríkissjóði til frekari verkefna á höfuðborgarsvæðinu og úti um allt land með það að markmiði að fara í alvöruátak í þessu kerfi.