146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:34]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda umræðuna. Hvernig má það vera á þessum gegndarlausu uppgangstímum að við treystum ekki nægilega innviði landsins? Ótta ríkisstjórnarinnar við þenslu er borið við sem algildi, samt hyggst sama stjórn innan tveggja ára lækka virðisaukaskatt. Síðasta ríkisstjórn bar síðan fyrir sig að efnahagsástandið væri svo bágborið að ekki væri unnt að treysta innviði. Hvenær má treysta innviði landsins?

Fordæmalaus fjöldi ferðamanna hefur streymt til okkar. Samt er það svo að vegsamgöngur, salernisaðstaða, útsýnis- og áningarstaðir eru kostnaðarlausir og enn þá er málum háttað eins og hér séu 300 þús. manns og ekkert hafi í skorist, þó að raunin sé sú að við höfum tvöfaldað mannfjöldann og þar með slit vega.

Samgöngur eru ekki eini póllinn sem hægt er að taka í þessari viðamiklu umræðu. Hvernig má það vera að nú áformar ríkisstjórnin stefnu um orkuskipti og þar innan er skipum ætlað að vera tengd við landrafmagn? Raunveruleikinn er sá að þriggja fasa rafmagn er munaður í dreifðum byggðum landsins. Vissulega eru það fögur fyrirheit í fjármálaáætlun að greina skuli þörfina fyrir þriggja fasa rafmagn en því verkefni fylgja engir peningar.

Virðulegi forseti. Fögur fyrirheit í stjórnmálum þar sem ekki fylgja peningar eru ekkert annað en orðagjálfur. Þörfin fyrir þrífösun rafmagns og rafdreifikerfis er áratugagömul. Málið hefur verið greint í þaula. Raunverulega þörfin er fyrir aðgerðir, ekki fleiri rúmmetra af pappír um málið. Það sem þarf er fólk í vinnu við að grafa skurði.

Því beini ég þremur spurningum til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: Hvaða fjármunir eru ætlaðir til að treysta þrífösun rafmagns? Eru einhverjar áætlanir um að auka viðhald Vegagerðinnar á óbundnu slitlagi? Er einhverjar ætlanir um fjölgun áningarstaða og útsýnisstaða?