146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

innviðauppbygging á landsbyggðinni.

[14:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún er brýn og mikilvæg. Ég fagna því að margir hv. þingmenn hafi nálgast málið með málefnalegum hætti þótt vissulega tali margir af ákveðnu ábyrgðarleysi í þessari umræðu þar sem velt er upp tugmilljarða framkvæmdum sem hægt sé að fara í eins og að smella fingrum. Þá er ekki verið að horfast í augu við raunveruleikann þegar þannig er talað og gefnar einhverjar væntingar sem ekki er hægt að standa við.

Ég vil aðeins koma að því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi hér síðast, að það mætti ekkert framkvæma úti á landi vegna þess að það væri svo mikil þensla á höfuðborgarsvæðinu. Það er nú samt sem áður þannig, eins og ég kom inn á í inngangsræðu minni, að það hefur verið aukið verulega til þessara málaflokka á yfirstandandi ári og það var þingið sem forgagnsraðaði stórum hluta af þeim upphæðum. Hvað er verið að gera úti á landi? Það er verið smíða nýja ferju fyrir Vestmannaeyjar. Það tekur mjög drjúgan skerf. Farið er af stað í Dýrafjarðargöng sem er framkvæmd sem mun á næsta ári taka um 3,5 milljarða og árin þar á eftir, sömu upphæð á hverju ári. Verið er að fara í Dettifossveg. Verið er að klára göng í gegnum Vaðlaheiði. Verið er að opna ný göng til Neskaupstaðar á þessu ári. Ég get talið áfram endalaust. Þetta eru allt verkefni úti á landi. Það er ekki hægt að tala hér af slíku ábyrgðarleysi og segja að ekki sé verið að forgangsraða í þá átt (Gripið fram í.) og síðan sé bara hægt að töfra fram einhverja tugi milljarða til að halda áfram.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á hvernig við myndum nálgast þetta í byggðaáætlun. Auðvitað eru þetta stór mál sem hljóta að koma til umfjöllunar í byggðaáætlun sem verður lögð fram síðar á þessu ári. Það er líka umræða um borgarlínu, sem er mikilvægt og gott verkefni, almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Við tökum því með jákvæðum huga, en það er alveg ljóst að það fjármagn sem þar er verið að tala um er ekki til ráðstöfunar eins og staðan er í dag. Það er nokkuð sem skoða þarf sérstaklega.

Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að ef við ætlum að ná utan um þetta með einhverjum hætti þurfum við að taka til hendinni (Forseti hringir.) og horfa út fyrir rammann miðað við þá fjármögnun sem er til staðar. Það er alveg sama, fullyrði ég, hvaða ríkisstjórn væri við völd, það þarf að hugsa þetta með einhverjum hætti upp á nýtt. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að gera þetta af fullri alvöru þurfum við auðvitað að ná í hinn stóra viðskiptavin, (Forseti hringir.) sem er hinn mikli ferðamannastraumur, sem er að ákveðnu leyti rót vandans, (Forseti hringir.) til að taka þátt í þessari uppbyggingu (Forseti hringir.) með okkur. Það gerist í gegnum vegtolla (Forseti hringir.) og eiginlega ekki með neinum öðrum hætti (Forseti hringir.) svo skynsamlegt sé. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)