146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þá umræðu sem er að hefjast hér, hún er í grunninn mjög góð og snýr að því hvert við viljum stefna með framhaldsskólastigið í landinu. Það er umræða sem er alltaf gild og góð og ber að taka hvenær sem óskað er eftir að minni hyggju.

Það er rétt, sem hv. málshefjandi heldur fram, að við höfum haft og höfum enn þá stefnu að nám á Íslandi eigi að vera aðgengilegt sem flestum, óháð búsetu, efnahag og öðru því um líku. Það hefur á margan hátt verið sótt að kerfinu eins og hv. málshefjandi benti réttilega á. Það hefur ekki eingöngu verið gert af fjárhagslegum ástæðum, það eru líka breytingar í samfélaginu sem leiða til þess að þjónustukerfi eins og menntakerfi þarf að bregðast við með einhverjum hætti og við höfum ekki gert það nægilega vel í gegnum tíðina. Við sjáum það ágætlega í því máli sem hefur verið efst á baugi alveg frá því á fimmtudaginn að í umræðunni er knúð á um að fleira sé rætt en fjárskortur eða vinnubrögð. Það eru margar aðrar ástæður fyrir því hvernig komið er og af hvaða ástæðu við erum að takast á við þetta verkefni, m.a. samfélagslegar breytingar, tilflutningur fólks, viðhorf, ný tækni, ný þekking o.s.frv.

Framlög til málaflokksins hafa verið að vaxa á undanförnum árum þrátt fyrir fækkun nemenda. Í áætlun fyrir árið 2018, eins og hún birtist í fjármálaáætlun, er gert ráð fyrir að framlögin verði þar 800 millj. kr. hærri en í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 og framlög á hvern nemanda eru að jafnaði að hækka umfram verðlag og hafa gert það frá árinu 2014. Í fjármálaáætluninni er ekki gert ráð fyrir þeirri breytingu. Þar er raunvöxtur framlaga á hvern nemanda 3–4%. Hins vegar er hagræðingarkrafa á málaflokkinn eins og á alla aðra málaflokka og hún hefur hækkað upp í 2%.

Ég ætla aðeins að koma að því sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og get tekið hluta af þeim spurningum sem fram koma í erindi hans og málflutningi síðara sinni.

Ég er ekki sammála því að við séum með samningaviðræður í gangi. Ráðuneytið er að skoða kosti á Norðurlandi í samstarfi við skóla þar og núna í þessum efnum hér á höfuðborgarsvæðinu. Við erum ekki að semja við skóla. Við erum að skoða úttekt og erum að vinna að úttekt á kostum og göllum þess að sameina þá tvo skóla sem hér liggja undir. Ég frábið mér tal um að við séum að hlaupa frá því verkefni að hnýta lausa enda sem lúta að starfsnámi. Það er ekki minn háttur að hlaupa frá verkum. Við erum með skýrslu Ríkisendurskoðunar sem dæmir allt kerfið, ekki bara í dag heldur í mörg herrans ár að því er lýtur að uppbyggingu og framþróun starfsnáms á Íslandi.

Ekki er nein sanngirni fólgin í því af hálfu málshefjanda að demba því öllu yfir ráðuneytið að ekki hafi nema níu eða tíu af 100 námsbrautarlýsingum fengist staðfestar. Ég veit að hv. þingmaður þekkir betur til en svo. Það eru 300–400 manns úti í samfélaginu sem hafa töluvert um það að segja hvernig þessum málum vindur fram. Þetta er ekki bara ráðuneytisins eða atvinnulífsins eða skólanna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur glögglega fram að um er að ræða sameiginlega ábyrgð allra þessara aðila og af einhverjum ástæðum hefur ekki gengið að koma málum fram til betri vegar í þessum efnum eins og raun ber vitni. Það er slæmt og ber að vinda ofan af því. Það tekur hins vegar tíma.

Ég vil að endingu segja það hér að ég (Forseti hringir.) held að við þurfum aðra umræðu til að eiga frekari skoðanaskipti því að tíminn (Forseti hringir.) líður og síðari hluti ræðu minnar verður því miður styttri en sá sem hér var fluttur.