146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Hún er ekki beysin menntastefna þessarar ríkisstjórnar. Frekar en að standa hér og ræða framtíðarsýn fyrir framhaldsskólastigið er hæstv. ráðherra búinn að teyma umræðuna út í fúafen um það hvort sameina eigi þennan skóla eða hinn og hverjar fjárveitingar og rekstrarform eigi að vera. Við erum ekki að ræða framtíðarsýn heldur útfærslur. Í anda samvinnu og sátta tilkynnir ráðherrann þingmönnum stjórnarliðsins, nokkrum dögum áður en við í stjórnarandstöðunni fréttum af því, að Tækniskólinn eigi að taka yfir Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þetta eru vinnubrögðin hjá hæstv. ráðherra. Það er kannski minnst fyrir okkur þingmenn að væla undan þessum ömurlegu vinnubrögðum því að þau snerta nemendur skólanna talsvert meira og starfsmenn skólanna sem standa eftir í algjörri óvissu um það hver framtíð þeirra verður innan nokkurra daga af því að ráðherrann hefur verið að pukrast með þetta frá því í febrúar.

Samhliða þessu segir ráðherra að ekki standi til að nýta breytingar á skólakerfinu til sparnaðar. Ætli staðið verði við það fyrirheit með sama hætti og þegar því var lofað að stytting framhaldsskólans, úr fjórum árum í þrjú, myndi ekki leiða til lægri fjárveitinga? Reyndin er nefnilega sú að aðhald er fjórfaldað í þeirri fjármálaáætlun sem nú er til umræðu, það fer úr 0,4% í síðustu áætlun í 2% á næsta ári.

Heitir þetta að standa með menntakerfinu? Nei, virðulegur forseti. Ég held að það sé ekki nokkurt einasta atriði sem bendi til þess að ríkisstjórnin standi með menntakerfinu. Það birtist ekki í stefnumótun, sem er engin. Það birtist ekki í fjárveitingum, sem eru sveltar. Það birtist ekki í samskiptum við skólasamfélagið eða við þingið. Nei, ef (Forseti hringir.) menntakerfið á að blómstra, virðulegur forseti, þarf að koma þessari stjórn frá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)