146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:18]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa fundað með hæstv. ráðherra í tvígang núna vegna málefna tengdum sameiningu og stöðu framhaldsskólans blasir við alvarleg áskorun. Á sama tíma og nemendum fækkar eru kröfur til skólakerfisins auknar verulega, m.a. vegna aukinnar eftirspurnar eftir vinnuafli með starfsréttindi úr iðn- og verkgreinum sem eru einmitt þær námsgreinar sem hafa átt undir högg að sækja, ekki bara hérlendis heldur einnig hjá félögum okkar á Norðurlöndum. Ríkisendurskoðun framkvæmdi stjórnsýsluúttektina sem hæstv. ráðherra vitnaði í áðan á starfsmenntun á framhaldsskólastigi og skilaði skýrslu um málið til Alþingis í apríl sl. Þar segir á bls. 18, með leyfi forseta:

„Leita þarf leiða til að auka áhuga ungs fólks á starfsnámi. Kannanir hafa sýnt að framhaldsskólanemar vilja meira starfsnám en gamalgróin viðhorf í þjóðfélaginu hafa sett starfsnám skör lægra en bóknám. Erfiðlega hefur gengið að breyta þeim. Á sama tíma og eftirspurn eftir vinnuafli með starfsréttindi í iðn- og verkgreinum eykst hefur atvinnuleysi háskólamenntaðs fólks aukist. Greina má skýra þörf fyrir fagmenntað fólk í flestum greinum atvinnulífsins en samt ratar aðeins lítill hluti framhaldsskólanema í verk- og starfsnám. Alvarleg skekkja hefur skapast milli námsvals og eftirspurnar eftir vinnuafli. Mikilvægt er að brugðist verði við þessari stöðu sem allra fyrst.“

Fyrir utan fyrirhugaða sameiningu Tækniskóla og Fjölbrautaskólans við Ármúla vil ég biðja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að lýsa þeim leiðum sem kemur til greina að fara til að efla og styrkja framhaldsskólann og þá sérstaklega verk-, list-, iðn- og tækninám.