146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem raunar hefði átt að koma að frumkvæði ráðherra sjálfs. Eins og við vitum er mál málanna fyrirhuguð sameining Fjölbrautaskólans við Ármúla við Tækniskólann sem unnið var að bak við luktar dyr án aðkomu þings, starfsmanna skólans og nemenda hans. Það sem mér þykir merkilegast við þessi vinnubrögð ráðherrans, hæstv. forseti, er að ráðherra gat ekki svarað með fullnægjandi hætti hvers konar lagastoð hann hefði á bak við það að ætla að standa að þessu algjörlega sjálfur án nokkurrar aðkomu þingsins og leyfði sér raunar að vísa alfarið á embættismenn sína þegar kom að mati hans á því að hann hefði heimild til þess að gera þetta. Svarið virðist vera: Ég á þetta, ég má þetta. Það er í ætt við athugasemdir hæstv. forsætisráðherra hér áðan um að minni hlutinn ráði engu og því beri ekkert samráð að hafa við hann.

Ástæðan sem hæstv. ráðherra gefur fyrir sameiningunni var að bregðast ætti við fækkun nemenda með því að vernda starfsnám og sameina því þessa tvo skóla. Ástæðan sem gefin var þegar stytta átti nám í framhaldsskólum landsins var að sú hagræðing myndi nýtast framhaldsskólum landsins. Nú kemur fram í þessari fjármálaáætlun að svo er ekki.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Fyrst ekki stendur til að nýta það fjármagn sem myndast við hagræðingu með því að stytta námstímann, sem er ein aðalástæðan fyrir því að við horfum fram á fækkun nemenda, af hverju er ekki verið að nota þessa peninga í að vernda starfsnám frekar en að sameina tvo skóla, annan einkaskóla og hinn opinberan skóla?

Ég spyr: Fyrst það á ekki að nýta fjármagnið sem myndast við hagræðinguna við styttingu framhaldsskólanáms, í hvað eiga þessir peningar þá að fara?