146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er sérstaklega tekið fram að langvarandi aðhald í fjárheimildum framhaldsskóla hafi sett mark sitt á starfsemi og rekstrarstöðu þeirra. Undirfjármögnun hafi bitnað á gæðum kennslu og námsframboði og hvorki hafi verið unnt að veita viðunandi stoðþjónustu né endurnýja búnað og kennslutæki. Eftir slíka klausu mætti gera ráð fyrir að í kjölfarið fylgdu upplýsingar um stórauknar fjárveitingar sem gerðu skólanum kleift að bæta stöðuna svo um munaði, en svo er ekki. Þess í stað er bent á að vegna styttri námstíma til stúdentsprófs sparist fjármunir og því dragi úr fjárframlögum í lok áætlunartímans. Við styttinguna var hins vegar lofað og staðfest í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að það sem sparaðist við styttinguna yrði látið renna til framhaldsskólastigsins til hagsbóta fyrir nemendur og skólastarf. En það ætlar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ekki að gera.

Herra forseti. Áform um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautaskólans í Ármúla eru vanhugsuð og órökstudd með öllu. Hvert er markmið sameiningarinnar? Hvaða vanda er verið að leysa í skólakerfinu með því að sameina þessa tvo stóru og ágætlega reknu skóla sem starfa hvor á sínu starfsmenntasviðinu, annar einkum í byggingar- og tæknigreinum en hinn á heilbrigðissviði? Báðir skólar njóta nú þegar stærðarhagkvæmni, bæði á faglegu og rekstrarlegu sviði. Engin viðmið hafa verið kynnt sem nýta á við mat á því hvort áformin verði að raunveruleika og mat á árangri sameiningar Iðnskólans í Hafnarfirði við Tækniskólann árið 2015 liggur ekki fyrir.

Tilfinning mín er sú að okkur sé ekki sögð öll sagan, að einhverju eigi að ná fram sem hæstv. ráðherra vill ekki segja hvað er. Það er augljóst af þessu máli að breyta þarf lögum um framhaldsskóla þannig að ráðherra þurfi að sýna fram á nauðsyn og ávinning af því að sameina skóla eða gera fleiri þjónustusamninga við einkaaðila.