146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[15:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er dapurlegt að sú breytingartillaga sem var gerð út af umsögn frá Persónuvernd sé að verða að lögum í annars mjög mikilvægu máli. Ég las yfir umsögnina frá Persónuvernd og rökin um að það eigi að taka burt möguleikann á nafnleynd eru með ólíkindum. Þetta er í eitt af fáum skiptum þar sem ég er alfarið ósammála umsögn frá Persónuvernd. Þarna er verið að fjalla um móral í bönkunum og Persónuvernd á ekki að hafa neina skoðun á því. Persónuvernd á að fjalla um persónuvernd og mér finnst í raun ótrúlegt að við séum hér að samþykkja svona slæmar breytingar á lögum sem eiga að stuðla að einhverju sem Alþingi hefur nú þegar samþykkt sem er uppljóstraravernd með bestu mögulegu gæðum. Þetta eru svo sannarlega ekki bestu mögulegu gæði og þetta mun hafa mjög slæmt fordæmisgildi til framtíðar ef við erum ekki mjög skýr með að þetta sé ekki rétta leiðin. (Forseti hringir.) Ég mun berjast gegn öllum svona kulnunaráhrifum í að halda samfélaginu opnu til að berjast gegn spillingu.