146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[15:52]
Horfa

Dóra Sif Tynes (V):

Virðulegi forseti. Hér er tekið til 3. og síðustu umr. þetta mikilvæga mál, frumvarp til laga um innleiðingu í íslenskan rétt reglur um evrópskt fjármálaeftirlit. Um leið er verið að marka lokaspor langrar vegferðar að innleiðingu þessara reglna. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hafa viðræður EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um þetta málefni tekið langan tíma, allt frá árinu 2010. Þessi tími er þó skiljanlegur þegar litið er til þess um hversu flókin álitaefni er um að ræða. Þátttaka EFTA-ríkjanna í hinu evrópska eftirlitskerfi felur augljóslega, með tilliti til eðlis og hlutverks þessara evrópsku eftirlitsstofnana, í sér fjölmörg stjórnskipuleg álitaefni.

Lausnin sem hér er verið að lögfesta ratar að sönnu nokkurt einstigi í þessum málum. Hún felst í því að Eftirlitsstofnun EFTA er falið formlegt ákvörðunarvald í einstaka málum en þó þannig að hinar evrópsku eftirlitsstofnanir hafa efnislega aðkomu að undirbúningi slíkra ákvarðana. Með þessu er reynt að stuðla að því að grundvallarmarkmiði EES-samningsins um einsleitni verði náð.

Með þessu fyrirkomulagi er um nýmæli að ræða hvað EES-samninginn varðar, enda gerði sá samningur í upphafi ekki ráð fyrir slíkum sjálfstæðum eftirlitsstofnunum eins og hér er verið að fjalla um. Nú er hins vegar svo komið að innan Evrópusambandsins er lögð sífellt meiri áhersla á að aukin sé samræming eftirlits á markaði. Í því skyni hefur fleiri slíkum stofnunum verið komið á fót. Ég nefni sem dæmi eftirlitsstofnanir á sviði fjarskipta, orkumála og persónuverndar.

Því má gera ráð fyrir að Alþingi fái til umfjöllunar löggjöf á þessum sviðum og að sú löggjöf taki mið af þeirri lausn sem hér er rætt um, þ.e. að ákvörðunarvald sé falið Eftirlitsstofnun EFTA en stofnanir ESB hafi að því efnislega aðkomu.

Herra forseti. Innleiðing þessara reglna markar aðeins fyrstu sporin í innleiðingu viðamikils regluverks á sviði fjármálastarfsemi hér á landi. Líkt og getið var um í skýrslu utanríkisráðherra sem rædd var á þingi í síðustu viku biðu til að mynda um 200 gerðir á þessu sviði upptöku í EES-samninginn á síðasta ári. Þannig bíða fjölmargar gerðir innleiðingar í íslenskan rétt, gerðir sem eru mjög mikilvægur hluti þessa regluverks. Ég nefni sem dæmi tilskipun um slit fjármálafyrirtækja og tilskipun um innstæðutryggingar. Það er hlutverk Alþingis að greiða fyrir skjótri upptöku og innleiðingu þessara reglna til að tryggja framangreind einsleitnimarkmið EES-samningsins. Aðild að EES-samningnum, þátttaka í innri markaði Evrópu og hinu víðfeðma samstarfi sem EES-samningurinn mælir fyrir um felur nefnilega ekki í sér að bæði verði sleppt og haldið.

Að því sögðu, herra forseti, lýsi ég eindregnum stuðningi við þetta frumvarp.