146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

130. mál
[16:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla bara að árétta örstutt það sem fram kemur í nefndaráliti utanríkismálanefndar um þessa þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016 er varðar félagarétt. Helsta áréttingin sem ég vildi koma á framfæri er akkúrat sú sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason fór yfir í sínu máli um athugasemdir við að tilskipun hafi verið innleidd áður en stjórnskipulegum fyrirvara hafi verið aflétt.

Umræður um þetta atriði urðu á fundum utanríkismálanefndar og var sátt innan nefndarinnar um að það að tiltaka þetta sérstaklega og benda á það í nefndarálitinu væri til þess fallið að koma á framfæri þeim ábendingum nefndarmanna að virða þá málsmeðferð er varðar þinglega meðferð EES-mála sem kemur fram í 5. gr. reglna þar um. Vildi ég vekja athygli á því að við fulltrúar minni hlutans skrifum undir þetta álit eftir umræðu innan nefndarinnar um þetta en vekjum samt sem áður athygli á klausunni í nefndarálitinu er varðar stjórnskipulegan fyrirvara.