146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

landgræðsla.

406. mál
[16:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka svarið en almennt var það. Jú, jú, ég veit af þessu öllu saman, en þegar kemur að stykkinu, eins og maður segir, þegar um er að ræða ríkisfjármálaáætlun sem núna verður væntanlega samþykkt, er ekkert borð fyrir báru í raun og veru þegar kemur að þessum málaflokki. Við erum margbúin að fara í gegnum þetta í umhverfisnefnd, 1 milljarður kemur nokkurn veginn fyrsta árið og síðan er nánast stöðnun þannig að ef maður leggur þetta saman og deilir í með fimm er maður með 200–250 milljónir á ári mínus þær fjárfestingar í byggingu sem ég nefndi. Þó að grænir skattar verði auknir og annað slíkt er alveg ljóst að markmið sem raunverulega miða að því að auka verulega bindingu hér munu ekki nást, því að nú kemur skógræktin inn í þetta líka, innan ramma þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Það er kannski stóra málið. Það eru alls konar hugmyndir á kreiki, en þegar kemur að stykkinu tel ég nokkuð ljóst að ramminn er svo þröngur að allt tal sem ég styð fullkomlega, tal um aukinn árangur, nýjar leiðir, er til lítils marks í raun og veru þegar svona þröngt er skorinn stakkurinn.