146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[16:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til heildarlaga um skóga og skógrækt. Núgildandi lög um skógrækt eru yfir 60 ára gömul og um margt úrelt þó svo að markmið þeirra séu enn í fullu gildi og verða eflaust áfram. Frá gildistöku þeirra hefur áunnist mikið í skógrækt hér á landi þar sem þekking og geta til að rækta nýja skóga hefur orðið til. Skógrækt er stunduð hér á landi annars vegar til þess að byggja upp ræktaða skóga til timburframleiðslu og hins vegar til að endurheimta náttúruskóga landsins. Jákvæð áhrif fjölbreyttra skóga á vistkerfið, efnahag og lýðheilsu til að mynda er margsönnuð og því mikilvægt að efla skógrækt enn frekar.

Frá því að núgildandi skógræktarlög voru samþykkt hefur ýmislegt breyst í annarri umhverfislöggjöf hérlendis, svo sem um náttúruvernd, skipulagsmál, skógrækt á lögbýlum og um mat á umhverfisáhrifum. Mikilvægt er að löggjöf um skógrækt verði uppfærð í takt við þá þróun sem orðið hefur í samfélaginu en sú þróun snýr einnig að nýjungum í skógræktarrannsóknum og þekkingar- og upplýsingaöflun.

Mikilvægt er að í nýjum skógræktarlögum sé lögð áhersla á aukna útbreiðslu fjölbreyttra skóga, þróun skógarnytja til verðmætasköpunar, til skjólmyndunar, nýsköpunar og byggðaþróunar, aðgengi fólks að skógum til útivistar og virkni skógvistkerfa og þar með talið fyrir jarðvegsvernd, vatnsvernd og líffræðilega fjölbreytni.

Forsendur fyrir því að ná öllum þessum áherslum fram er vernd og sjálfbær nýting þeirra skóga sem fyrir eru, ræktun nýrra nytjaskóga, endurheimt náttúruskóga og öflugt rannsóknar- og þróunarstarf.

Undirbúningur að gerð frumvarpsins hefur staðið yfir frá 2011, en þá skipaði þáverandi umhverfisráðherra nefnd sem ætlað var að undirbúa gagngera endurskoðun á lögum um skógrækt frá 1955. Nefndin starfaði í víðtæku samráði við hagaðila og skilaði hún af sér greinargerð og tillögum að breytingum á núgildandi skógræktarlögum. Í kjölfarið ákvað þáverandi ráðherra að unnið skyldi frumvarp til nýrra heildarlaga um skógrækt og árið 2014 var skipaður samráðsvettvangur til að undirbúa gerð frumvarpsins.

Fyrr á þessu ári voru drög að frumvarpi til laga um skógrækt síðan auglýst á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hagsmunaðilum gefinn kostur á að senda inn umsögn og athugasemdir við efni þess. Alls bárust ráðuneytinu 12 umsagnir og tók frumvarpið nokkrum efnislegum breytingum í ljósi þeirra, einkum hvað varðar vægi verndunar náttúruskóga, skilgreiningu hugtaka, leyfisveitingu um fellingu og eyðingu skóga og mótun landsáætlunar í skógrækt.

Ég ætla að fara yfir helstu breytingar í frumvarpinu, markmið laganna varðandi þætti eins og vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbærrar nýtingar skóga, samræmi við skipulagsáætlanir og náttúruvernd, aðgengi fólks að skógum til útivistar og gildi og aðlögun skóga að loftslagsbreytingum.

Kveðið er á um landsáætlanir í skógrækt sem lögð verði fyrir Alþingi. Í áætluninni á m.a. að gera grein fyrir forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags, verndar og endurheimtar náttúruskóga og líffræðilegrar fjölbreytni, ræktunar skóga til uppbyggingar skógarauðlinda og umfangs og horfa hvað varðar nýtingu, sjálfbærrar nýtingar skóga, áhrifa skógræktar á atvinnuþróun og byggðar og loks að aðgengi fólks að skógum til útivistar.

Samkvæmt frumvarpinu skal landsáætlun nýtt í að gera ítarlega framkvæmdaáætlun í skógrækt fyrir alla landshluta. Sú áætlun á einnig að falla að og samræmast áætlunum sveitarfélag. Einnig er lagt til að vinna skuli ræktunaráætlanir fyrir alla nýræktun skóga.

Sett er inn ákvæði um að Skógræktin haldi skrá yfir alla skóga landsins og eins varðandi hlutverk Skógræktarinnar við umsjón þjóðskóga og annarra svæða í umsjón stofnunarinnar.

Lög um skógrækt á lögbýlum verði hluti af heildarlögum um skógrækt, gangi þetta frumvarp eftir, en efnislega eru lagðar til litlar breytingar á þeim.

Sérstakur kafli fjallar um vernd, umhirðu og nýtingu skóga til þess að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra. Sett eru inn ákvæði um að leyfi Skógræktarinnar þurfi til þess að fella skóg og miðað við að ráðist verði í mótvægisaðgerðir til þess að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif af eyðingu skóga.

Þá ætla ég að gera nánari grein fyrir helstu breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Sett eru fram markmið sem endurspeglar þær breytingar sem hafa orðið á umhverfi skógræktar síðustu áratugi. Vernd og aukin útbreiðsla náttúruskóga, sem eru aðallega íslenskir birkiskógar, eru sett á oddinn, sem og vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni. Einnig eru sett fram markmið um að byggja upp fjölbreytta skógarauðlind í landinu og að nýting hennar sé sjálfbær þannig að skógarnytjar skili sem mestum hagrænum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið. Auk þessa eru sett fram markmið um samræmi skógræktar og annarrar landnotkunar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsáætlun í skógrækt til tíu ára í senn. Með landsáætlun er mörkuð stefna stjórnvalda og sett tölusett markmið um árangur í skógrækt sem tæki mið af markmiðum laganna. Landsáætlun er því grundvallarstjórntæki stjórnvalda og vettvangur samráðs um skógrækt í landinu. Skipuð verði verkefnisstjórn sem hafi yfirumsjón með gerð landsáætlunarinnar.

Til þess að útfæra landsáætlun í skógrækt kveður frumvarpið á um að skógræktin í samráði við sveitarfélög, bændur og aðra hagsmunaaðila, vinni ítarlega framkvæmda fyrir hvern landshluta. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ræktunaráætlun sé undanfari allrar nýræktunar skóga. Þar er ræktunin útfærð og tilgreind svæði sem ekki er ætlunin að rækta í skóg, svo sem vegna verndarákvæða. Ræktunaráætlun getur verið forsenda þess að sveitarfélög veiti framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt.

Þá að samstarfi um skógrækt. Meðal annars með vísan til landsáætlunar í skógrækt hefur Skógræktin samkvæmt frumvarpinu heimild til að styðja við skógrækt einstaklinga, félagasamtaka, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra. Þetta ákvæði skýrir hlutverk Skógræktarinnar til þess að hvetja almenning í landinu til skógræktarstarfs, en fjallar hins vegar ekki um skógrækt á lögbýlum.

Í frumvarpinu er fjallað um skógarskrá sem Skógræktin skal halda og tryggja að sé unnin. Skógarskrá byggir að mestu leyti á verkefni skógræktarinnar, íslenskri skógarúttekt, sem er m.a. til orðin vegna skuldbindinga Íslands gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hér er því um afar mikilvægt ákvæði að ræða.

Þjóðskógar eru skilgreindir í frumvarpinu sem skógar og lönd í umsjón Skógræktarinnar, hvort heldur sem er á landi í eigu ríkisins eða í einkaeigu eins og nánar er skilgreint í reglugerð samkvæmt 9. gr. Með ákvæðinu er skýrður nánar tilgangur þess að ríkið hafi sérstaka umsjón með ræktuðum skógum og náttúruskógum sem ekki eru innan annarra verndarsvæða og staða þeirra skilgreind í reglugerð. Dæmi um þjóðskóga eru Hallormsstaðarskógur, Vaglaskógur, Haukadalsskógur og skógurinn í Þjórsárdal.

Þá að skógrækt á lögbýlum.

Lög um landshlutaverkefni í skógrækt eru felld undir frumvarpið til einföldunar. Gert er ráð fyrir að áfram verði stutt við skógrækt á lögbýlum sem hefur um árabil verið umfangsmesta skógræktarverkefni landsins. Það felur í sér þinglýsta samninga til 40 ára. Kveðið er á um sjálfbæra nýtingu skóga í frumvarpinu sem felur í sér að árleg felling í skógum landsins skuli að jafnaði ekki vera meiri en árlegur vöxtur þeirra, þ.e. að ekki skuli verið meira tekið af auðlindinni hverju sinni en rentan. Það er grundvallarhugmyndafræði sjálfbærni. Einnig er kveðið á um að leitast skuli við að umhirða og nýting skóga skili sem mestum hagrænum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi fyrir samfélagið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að afla þurfi leyfis Skógræktarinnar til þess að fella skóg eða hluta hans. Núgildandi lög kveða á um að leyfis skuli aflað til að rjóðurfella skóg. Ákvæðið beinist einkum að nytjaskógum þar sem felling felur í sér að ráðist verði í endurnýjun skógarins til þess að viðhalda auðlindinni. Þess vegna er heimilt að binda fellingarleyfi skilyrðum til þess að tryggja endurnýjun skógar.

Varanleg eyðing skógar felur ekki í sér endurnýjun eins og felling. Er hún óheimil samkvæmt frumvarpinu. Þetta gildir um ræktaða skóga og náttúruskóga. Sé eyðing skógar talin óhjákvæmileg ber að tilkynna slíka framkvæmd til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæðið kveður á um að framkvæmdaraðili skuli ráðast í mótvægisaðgerðir til þess að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið með hliðsjón af markmiðum laganna, svo sem með endurheimt sambærilegs skóglendis og því sem eytt var.

Lagt er til að óheimilt sé að beita búfé í skógi eða skógræktarsvæði nema með leyfi viðkomandi skógareiganda, enda sé skógurinn eða skógræktarsvæðið girt girðingu sem fullnægir skilyrðum girðingarlaga.

Skógræktinni er með veitt heimild til þess að innheimta gjald vegna útgáfu fellingarleyfa og eins til að innheimta gjöld vegna þjónustu innan þjóðskóganna. Slík þjónusta getur verið í formi bílastæða, salerna og tjaldsvæða.

Þá að þvingunarúrræðum og stjórnvaldssektum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að Skógræktin geti beitt þvingunarúrræðum til að knýja á um ráðstöfun samkvæmt lögunum einkum hvað varðar fellingarleyfi og varlega eyðingu skóga. Heimild til þess að beita stjórnvaldssektum er að sama skapi einkum beint að sömu ákvæðum ef brot hefur þegar átt sér stað.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps.

Ég legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar.