146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[17:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara síðari spurningunni varðandi fjármunina þá er, eins og ég fór yfir með öðrum þingmanni fyrr í dag, í þeirri fjármálaáætlun sem fyrir liggur kannski ekki beint búið að negla niður peninga í þessi mál. Við vitum þó að komin er milljarðaaukning í umhverfismálin. Það er líka vitað, ég vona að þingmönnum sé það ljóst, að ég legg mikla áherslu á skógrækt og landgræðslu, einfaldlega út af því að við eigum alla þessa innviði til staðar, það er svo auðvelt fyrir okkur að auka í. Það er næstum því þannig að við þurfum bara að fara út í búð og kaupa fleiri plöntur eða sá meira fræi. Gunnarsholt og Skógræktin á Egilsstöðum, þar er allt til staðar. Ég er líka sammála því, sem kom fram í máli hv. þingmanns, að það er algjörlega ástæðulaust að hreyfa eitthvað við því. Mér finnst gott að Skógræktin og Landgræðslan séu úti á landi að sinna landinu.

Ég lýsti því hér áðan að ég hefði ýmsar hugmyndir um að ekki þyrfti endilega allt að koma úr ríkissjóði hvað varðar skógrækt og landgræðslu. Ég sé til dæmis að stóriðjan ætti að leggja í að binda, ég hef átt þau samtöl við stóriðjuna, þau kolefni sem hún losar hér. Þó að stóriðjan sé með sín reikningsskil í alþjóðlega kerfinu ETS finnst mér full ástæða til að reyna að telja hana inn á að vera í meiri sátt við samfélagið. Stóriðjan kemur okkur við og losar það sem hún losar; það hefur áhrif á andrúmsloftið. Það væri tilvalið, finnst mér, (Forseti hringir.) að þessi fyrirtæki legðu okkur lið í þetta verkefni með því að fara í landgræðslu og skógrækt.