146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skógar og skógrækt.

407. mál
[17:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn við fjármálaáætlun, ef hún fer í gegn á grundvelli fjármálastefnu sem var samþykkt hér í vetur, er að maður skynjar strax þá tilhneigingu að tala eins og þar með séu málin frágengin næstu árin. Það gæti átt eftir að þvælast verulega fyrir mönnum ef menn kæmust nú að þeirri niðurstöðu eftir vinnu í ár að það væri vænlegur kostur fyrir Ísland að stórauka aðgerðir á þessu sviði, þá stangi menn þakið og rekist á þessa ramma. Þess vegna hefði manni náttúrlega liðið betur ef að minnsta kosti hefði verið sett inn einhver áætlun og einhver fjárhæð, bara þó nokkuð myndarleg fjárhæð, sem menn ættu þá eftir að skipta eða spila úr.

Ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hér er tiltölulega ódýrt og mjög fljótlegt að auka aðgerðirnar. Við höfum innviðina til staðar. Það er heilmikil vannýtt plöntuframleiðslugeta í landinu. Það er alveg augljóst mál að við getum farið úr þessum tveim, þrem, fjórum milljónum plantna upp í sex, átta án þess að þurfa að kosta neinu til. Það er sömuleiðis alveg ljóst að við gætum verið með margfalt öflugra starf í verkefnum eins og Bændur græða landið. Það strandar bara á peningum. Það verður ótrúlega mikið úr því. Ég þekki það vel á nokkrum landsvæðum þar sem Landgræðslan, það litla sem hún hefur getað lagt bændum lið, kemur inn með áburð og fræ. Bændur sjá um allan annan kostnað. Gera það með glöðu geði í sjálfboðavinnu og með sínum tólum og tækjum, aka langt inn á heiðar og eru að endurheimta þar gróðurþekju á land. Þarna er hægt að gera miklu meira án þess að kosta þurfi neinu til nema bara hráefnunum. Í raun og veru er þetta bara spurningin um hráefnin, þ.e. um plönturnar, og þá að greiða þau vinnulaun sem þarf til að koma þeim niður. Og í tilviki (Forseti hringir.) verkefnis eins og Bændur græða landið bara að leggja til fræ og áburð.

Síðan er það auðvitað rétt að vel getur komið til greina að losendur leggi sitt af mörkum að einhverju leyti í gegnum framlög inn í svona verkefni, samanber Noreg, (Forseti hringir.) sem ekki getur plantað meiri skógum heima hjá sér en gerir það þá í öðrum löndum.