146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:00]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Skipulag haf- og strandsvæða er málaflokkur sem er mér mjög hugleikinn. Ég kallaði eftir í fyrri ræðum að þessi lagasetning ætti sér stað í ljósi þeirra verkefna sem liggja fyrir, t.d. um málefni þangs og þara og síðan fyrirhuguð áform um fiskeldi.

Þó glymur í viðvörunarbjöllum þegar ég renni augum yfir frumvarpið sem liggur fyrir. Í fyrsta lagi kemur frumvarpið fram þegar níu þingfundadagar eru eftir á dagskrá þingsins og því þarf að kryfja mál sem hefur áhrif á 11 mismunandi gildandi lög í landinu. Í öðru lagi hef ég áhyggjur af því að skipulagsvaldi sveitarfélaga sé ekki gert nægilega hátt undir höfði.

Í 5. gr. frumvarpsins um svæðisráð er talað um að þrjú viðeigandi ráðuneyti skipi einn mann hvert. Í framhaldi er síðan kveðið á um það að ráðherra umhverfismála skipi formann nefndarinnar. Þarna eru komnir saman fjórir fulltrúar ríkisstjórnar Íslands. Síðan eiga sveitarfélög rétt að á skipa tvo menn inn í svæðisráð ásamt einum fulltrúa Samtaka íslenskra sveitarfélaga og hafa því sveitarfélög landsins aldrei meiri hluta og þar með skipulagsvald á eigin strandsvæðum. Gengið er út frá þeirri forsendu að nefndarmenn séu aldrei fleiri en sjö.

Ekki skánar það þó svo að sveitarfélög séu sammála um ráðstafanir sem á að ráðast í, að þá hefur hver fulltrúi ríkisins neitunarvald og þarf því að vera samhljómur hjá öllum fulltrúum ríkisins, en sveitarfélög geta síðan verið ósammála hvert fyrir sig. Því býður fyrirkomulagið upp á málamiðlun þar sem eitt sveitarfélag og ríki geta tekið ákvörðun sem hefur slæm afleiðuáhrif á nágrannana. En nágrannasveitarfélög geta ekki tekið sameiginlegar ákvarðanir um t.d. kræklingarækt ef fulltrúa samgönguráðherra hugnast það ekki.

Ég mælist því til þess að þessi grein laganna verði endurskoðuð með það að markmiði að jafna valdahlutföll sveitarfélaga og ríkisins. Einnig er hér verið að ganga heldur hart fram í breytingu á skipulagi innan netlaga sem eru í einkaeign. Því er það heldur hjákátlegt að færa skipulagsvald á inngripslitlum aðgerðum frá nærsamfélaginu á meðan inngripsmiklar aðgerðir geta verið ákvarðaðar án nokkurs réttar til neitunar sveitarfélaganna í kring.

Því mæli ég fyrir því að við sleppum að taka þennan lagabókstaf lengra en í umsagnarferli á þessu þingi þar sem þetta er gríðarlega stór og veigamikil breyting á skipulagsvaldi allt í kringum landið. Það er skammarlegt að þetta reki hér á fjörur eins og lítils háttar lagfæring á lagabókstaf með kúlupenna. Ég fagna því þó að frumvarpið sé komið fram svo hægt verði að ráða á því bót yfir sumarið með von um að þetta verði ekki afgreitt með hraði svona rétt fyrir þinglok.