146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:08]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Ýmiss konar starfsemi fer nú fram á haf- og strandsvæðum hringinn í kringum landið og augljóslega þarf að samþætta ákveðin grundvallaratriði sem snúa að því að viðhalda og vernda umhverfið og enn fremur ná til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og eflingar atvinnulífs á því svæði samhliða. Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða felur í sér viss nýmæli í skipulagsmálum á Íslandi. Ég er sammála hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar, sér í lagi vegna mjög aukinnar eftirspurnar eftir athafnasvæðum sem og nauðsyn á skýrri og skilvirkri stjórnsýslu skipulagsmála og svæðisbundinna skipulagsgerða.

Þá er ég sammála þeim markmiðum sem að er stefnt með löggjöfinni og þeirri stefnu um skipulag haf- og strandsvæða sem lagt er til að mótuð verði og fram kemur í meginefni frumvarpsins að verði svo nánar útfærð og svæðaskipt með strandsvæðaskipulagi.

Ég geri mér grein fyrir því að það eru uppi skiptar skoðanir um nánara efni og útfærslu frumvarpsins, alveg eins og við er að búast þegar um er að ræða nýja löggjöf á því sviði. Því tel ég mikilvægt að við 1. umr. séu þau sjónarmið reifuð og komi fram. Það getur verið mikilvægt veganesti fyrir umfjöllun og starf í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það er til þess fallið að dýpka umræðuna og stuðla að vandaðri lagasetningu.

Þótt ég hafi lýst því yfir að ég sé fylgjandi frumvarpinu í meginatriðum, fylgjandi þeim sjónarmiðum sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggur fram og meginefni frumvarpsins, þá er að mínu mati ástæða til að staldra við ýmsa þætti. Það má velta fyrir sér ýmsum útfærslum sem fram koma í efnisatriðum frumvarpsins. Ég ætla ekki í þessari umræðu að rekja einstök atriði eða fara yfir frumvarpið lið fyrir lið, ég tel að það megi bíða betri tíma, en ég tel að reifa megi aðalatriði sem er ástæða til þess að staldra aðeins við og geta verið veganesti fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd í nánari skoðun milli 1. og 2. umr. frumvarpsins. Það atriði er stjórnsýsla skipulagsmála eins og hún kemur fram í frumvarpinu, það sem snýr að verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fór ágætlega yfir inntak frumvarpsins í framsögu sinni, hvernig stjórnsýslan er hugsuð í frumvarpinu og í meginatriðum er ég henni sammála. Það er rétt að við erum að vinna mál af þessu tagi með þeim hætti að löggjafinn að setji rammann, fram komi tilgangur, meginmarkmið og sá rammi sem stjórnsýslan á að starfa eftir. Eins er ég sammála því að ráðherra umhverfis- og auðlindamála fari með yfirstjórn málaflokksins og að Skipulagsstofum hafi eftirlitshlutverk og ráðgjafarhlutverk enn fremur.

Eins er ég sammála því að stjórnvöld, ráðherra á því stigi, móti heildarstefnu í skipulagsmálum haf- og strandsvæða. Það er í takt við gildandi skipulagslöggjöf eins og hún birtist í áætlun um landslagsskipulagsáætlun, ef ég fer rétt með þau efnisatriði eins og þau eru skilgreind.

Það sem er ástæða til að staldra við er hvort stjórnsýslan eins og hún er boðuð í frumvarpinu með svæðisráð sé heppileg og hvort velta megi fyrir sér frekari aðkomu sveitarfélaga á grundvelli sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga eins og hann kemur fram í 78. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að sveitarfélög skuli ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða.

Það sem þyrfti að ræða í nefndarvinnu milli 1. og 2. umr. og kalla eftir sjónarmiðum um er að hversu miklu leyti sú verkaskipting er fullnægjandi í frumvarpinu og hvort horfa megi til sjónarmiða sem eru grundvölluð af svokallaðri nálægðarreglu, sem gætu fengið aukið vægi í frumvarpinu. Í nálægðarreglunni, sem er ekki sérstaklega orðuð neins staðar í íslenskri löggjöf, segir hins vegar að ákvarðanir sem snúa að réttindum og skyldum og öðru nærumhverfi borgaranna skuli teknar sem næst borgurunum. Í tilviki Íslands ættu þau verkefni sem geta verið á borði sveitarfélaga að vera á borði þeirra. Þau verkefni sem þurfa að vera á næsta stigi fyrir ofan, á hendi ríkisins, skulu þá vera afgreidd þar.

Það sem skiptir máli að skoða vandlega hvernig nákvæmlega verkaskiptingin kemur fram. Ég sé fyrir mér að hægt sé að búa til ansi gott fyrirkomulag þar sem tryggt er að ríkið, þar sem ráðherra er í forsvari fyrir málaflokkinn, á grundvelli þess að setja stefnu um heildarskipulagið eins og núgildandi skipulagslög gera ráð fyrir að afmarka, þ.e. heildarsviðið, ákveði hvaða stefnumál skuli lögð til grundvallar, hvernig þau skuli lögð til grundvallar og þær breiðu línur sem þurfa að vera til staðar. Það gæti þá verið undir hverju sveitarfélagi komið eða eftir atvikum lögbundið milli sveitarfélaga, innan þess ramma sem stjórnvöld hafa ákveðið, bæði ráðherra og svo auðvitað löggjafinn með lögum sínum, að ákveða tiltekin atriði sem geta skipt máli fyrir sveitarfélög, fyrir hvert hérað og getur skipt máli fyrir íbúa, að þau hafi eitthvað um það að segja hvernig tilteknum atriðum skuli ráðstafað eða hvaða störf það eru sem nákvæmlega skulu heimiluð, eða hvernig skuli samþætta mismunandi atvinnustarfsemi sem er ekki að fullu leyti samrýmanleg.

Það er rætt hér sem snýr að skipulagsmálum. Það er rétt sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra segir að einhvern veginn verður að bregðast við því af því að hér er um nýmæli að ræða, að sveitarfélög hafa ekki skipulagsvald samkvæmt gildandi löggjöf en sem nær að netlögum. Þá er spurningin: Hvað gerum við þá við netlög? Hvaða þýðingu hafa netlög í því sambandi? Ef við byrjum á byrjuninni má segja að netlög séu í grunninn ekkert annað en forn viðmiðunarreglna sem notað var um aðstæður og starfsemi sem þá var uppi. Þetta er ákveðin viðmiðunarregla, þetta er lengdarregla sem sett var af því menn höfðu ekki betri tækjum til að dreifa, ef svo má segja, eða betri viðmiðunum til að dreifa á þeim tíma, fyrir alllöngu síðan.

Nú er öldin bókstaflega önnur og umfang starfsemi og samfélag okkar er flóknara, þróaðra, tæknivæddara og þess háttar. Í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að með lögum sé afmörkuð önnur viðmiðunarregla. Hún getur verið hvers konar. Við þurfum þá að ræða hvað það getur verið. Það getur verið hlutlæg viðmiðun eins og ákveðin lengdareining frá strandsvæði, til að mynda 1 sjómíla. Það getur tekið mið af dýpi í hafinu eða einhverju slíku.

Það sem ég hef komið hér á framfæri er samandregið að það er ekkert sem segir og bindur löggjafann til að miða við aðra viðmiðunarlínu en netlög eingöngu. Það er hægt að horfa á það frá öðrum sjónarhornum.

Þá má velta fyrir sér, ef hægt er að horfa til annarra viðmiðunar en netlaga, hvort það kalli á að í skipulagsvaldi sveitarfélaga sé rökstuðningur fyrir því að þau nái líka eitthvað lengra. Núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir því að skipulagsmál í nærumhverfi sveitarfélags séu í höndum sveitarfélags. Það eru rök sem við skulum fara vandlega yfir og ræða, hvort í þessu máli sem snýr að haf- og strandsvæðum sé ástæða til þess að skipulag stjórnsýslu okkar og verkaskiptingin verði með þeim hætti að sveitarfélög hafi ákveðið skipulagsvald. Þeim ber þá að sjálfsögðu að fara eftir lögum og þeim ramma sem sett eru og þau geta ekki farið út fyrir þá heildarstefnu sem ráðherra hefur markað innan þess löggjafar sem um er að ræða. Eftir sem áður væri það líka hlutverk Skipulagsstofnunar að hafa eftirlit með slíkri starfsemi hjá sveitarfélögunum.

Í frumvarpinu er farið yfir hvernig skipulag haf- og strandsvæða er í öðrum löndum nálægt okkur og tínt til hvernig Evrópusambandið hefur mótað heildarlöggjöf eða heildarramma á grundvelli tilskipunar. Svo er það eftir sem áður einstaka aðildarríkja innan Evrópusambandsins að útfæra nánar löggjöf eða reglur um haf- og strandsvæði, allt eftir aðstæðum og efni hverju sinni. Það kemur fram að byggt er á skosku löggjöfinni fyrst og fremst, það sem snýr að því að mynduð séu ákveðin svæðisráð. Það er ágætisumfjöllun um þetta í greinargerðinni. Þar er líka nefnt að í tilviki Svíþjóðar hafa þeir ákveðið að fara þá leið að skipulagsvald sveitarfélaga nái út að landhelginni, eða allt að 12 mílum. Lönd í kring um okkur hafa farið mismunandi leiðir. Þetta er það sem við þurfum aðeins að skoða, tel ég. Við þurfum að meta hvað geti verið heppilegt. Það eru sjónarmið um og rök fyrir því í þessum mikilvægu málaflokkum sem snúa að umhverfisvernd, að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu ýmissa náttúruauðlinda, sem eru hér allt í kringum strendur landsins, að við horfum til þeirra sjónarmiða.

Það eru önnur atriði sem má skoða. Það þarf að vanda vel til verka. Ég nefni sem dæmi lagaáskilnaðarreglur í 18. gr. frumvarpsins sem snúa að því hvernig skilin verða þegar nýjar reglur taka gildi, hvað verði um leyfisumsóknir sem eru í gangi. Ég tel þetta vera atriði sem við þurfum aðeins að skoða nánar, sérstaklega tímamörkin, og fá fram upplýsingar um það hvernig við gerum þetta sem best úr garði.