146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

skipulag haf- og strandsvæða.

408. mál
[18:28]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sem hv. þingmaður segir. Ég held að við séum sammála um nauðsyn og tilgang lagasetningarinnar, sammála um markmið lagasetningar eins og þau koma fram í 1. gr. frumvarpsins. Í grunninn er ég sammála því uppleggi sem er að finna í frumvarpinu sem snýr m.a. að stjórnsýslunni. Hér er um nýmæli að ræða og það gefur Alþingi tilefni til að staldra við og velta fyrir sér til að mynda grundvallarþáttum sem geta snúið að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, það getur haft ákvæði stjórnarskrárinnar til hliðsjónar og metið vægi þess að ákveðin atriði séu vel til þess fallin að sveitarfélög taki um þær ákvarðanir innan ramma laganna. Og til dæmis í máli sem snýr að útivistarstarfsemi hvers konar, að það sé þröngt um í einhverjum firði fyrir slíka starfsemi, þá horfi sveitarfélög til þess sem stefnu, heildarstefnu, sem hefur verið mótuð af hálfu ráðherra þegar þau leggja drög að skipulagi.

Ég get alveg séð fyrir mér að apparat eins og kynnt hefur verið í frumvarpinu, sem heitir svæðisráð, geti haft þýðingu við mótun slíkrar heildarstefnu, og eftir þá ákvörðun sem sveitarfélag tekur, eins og er í gildandi skipulagslögum, og þá hafi t.d. Skipulagsstofnun eftirlit með slíkri starfsemi. Þess konar stjórnsýsla sé ég alveg að geti gengið upp og tel að við ættum að skoða hana nánar.